Eyjamenn gengu vægast sagt verulega vonsviknir af velli eftir viðureign sína gegn Selfossi. Eyjamenn virtust vera með pálmann í höndunum þegar skammt var til leiksloka en Selfyssingar skoruðu þrjú síðustu mörk leiksins og unnu 23:25. Í stöðunni 23:24 sóttu Eyjamenn og Ingólfur Jóhannesson stökk inn úr horninu. Varnarmaður Selfyssinga keyrði hreinlega inn í Ingólf og var auk þess inn í teig en á einhvern óskiljanlegan hátt tókst öðrum dómara leiksins að sjá út ruðning. Selfyssingar brunuðu svo í sókn og skoruðu 25 markið.
Þótt dómurinn hafi verið svo kolrangur að annað eins hefur varla sést í háa herrans tíð, þá geta Eyjamenn sjálfum sér um kennt að vera komnir í þá stöðu að þurfa jafna metin. ÍBV fékk fjögur tækifæri til að komast tveimur mörkum yfir í stöðunni 22:21 en það tókst ekki, sem var mjög klaufalegt.
Annars var leikurinn þannig að Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleik og staðan í hálfleik var 9:11 þeim í vil. Selfyssingar komust svo í 11:15 en smátt og smátt náðu Eyjamenn að saxa á forskotið og komust svo loks yfir þegar um sjö mínútur voru eftir. En lok leiksins voru eins og áður sagði, gríðarleg vonbrigði.
En þótt margt hafi farið úrskeiðis í leiknum og sumir leikmenn hafi gert full mikið af mistökum, þá var baráttan til mikillar fyrirmyndar. Leikmenn gáfust ekki upp fyrr en í fulla hnefana og jafntefli hefði verið sanngjörn úrslit úr þessum leik.
Mörk ÍBV: Sigurður Bragason 5, Leifur Jóhannesson 5, Bragi Magnússon 4, Arnar Pétursson 3, Sindri Haraldsson 3, Ingólfur Jóhannesson 2, Vignir Stefánsson 1.
Varin skot: Kolbeinn Arnarson 21.