Hjá ÍBV var Arnar Pétursson traustur og hélt vörninni saman lengst af sem og lét boltann ganga vel í sókninni. Sóknarlega var Siggi Braga aðalslúterinn og átti góðar línusendingar sem Bragi Magg nýtti ágætlega. Leifur Jóh. var mjög rólegur í leiknum og átti líklega bara eitt skot á markið allan leikinn. Hornamenn ÍBV voru frískir lengst af og sérstaklega kom Ingólfur Jóh. ferskur inn, nýtti færin sín vel og barðist eins og ljón.
ÍBV liðið á að geta spilað mun betur en það gerði á móti Aftureldingu. Mestu skiptir að leikmenn sem eiga að vera sterkir, jafnvel í efstu deild, eru engan veginn klárir í slaginn og þurfa jafnvel á tveggja mánaða detox meðferð að halda hjá Jónínu. Kolli í markinu hefur oft átt betri leiki en þennan og verður að hafa í huga að skytta sem hreyfir sig í eina átt skýtur oftar en ekki í gagnstætt horn í markið.
En í heildina þá kæmi það ekki á óvart ef að ÍBV liðið æfir eins og menn að þeir muni leggja Aftureldingu að velli á heimavelli eftir einhverjar vikur. Þetta er lið sem hæglega getur verið að spila um efsta sætið, ekki síst eftir að fá gríðarlegan liðsstyrk í Arnari Péturs. Nú reynir kannski á að fá menn til að líta í eigin barm og setja metnað í æfingarnar, þá getur allt gerst!