Handbolti - Þrettándaskemmtunin á föstudag.
05.jan.2009 19:02
Nú er hafinn af fullum krafti undirbúningur fyrir þrettándaskemmtunina, sem hefst á föstudag 9. jan. kl. 19.00. Það er byrjað að ýta við þeim skötuhjúum Grýlu, Leppalúða og tröllunum í fjöllunum. Þau eru búin að sofa frá því um síðustu jól. Vöknuðu að vísu aðeins þegar þau brugðu sér í Bítlabæinn í haust. Þar sungu þau og gerðu frægt lagið "Tröllin hafa vakað í þúsund ár", svo undir tók um allt Reykjanesið. Eins og venjulega tekur nokkra daga að vekja þetta hyski allt saman, enda húðlöt og geðvond, að vera vakin af værum svefni. Jólasveinarnir hafa aftur á móti verið á löppum síðan fyrir jól, og hlakkar einhver ósköp til að hitta börnin í Vestmannaeyjum. Krakkarnir hér í Eyjum eru nefnilega í miklu uppáhaldi hjá jólasveinunum, enda bestu börn í öllum heiminum. Stekkjastaur kom við hér í Týsheimilinu í morgun og bað okkur að láta krakkana vita af því, að allir verða að klæða sig vel fyrir skemmtunina og vera hlýðin og góð við alla í fjölskyldunni. Hann sagði okkur líka, að árið 2009 yrði mjög gott ár í Vestmannaeyjum, mikið betra en í fyrra. Stekkjastaur sagði okkur líka, að Stúfur sem er vitrastur af jólasveinunum hefi verið að skoða spákúluna sína. "Hann sér ekkert nema fisk um allan sjó hér í kringum Eyjarnar. Það hlýtur að vita á gott. Sjáumst á föstudaginn hó hó hó", sagði Stekkjastaur hressasti jólasveinninn.