Tveir efnilegustu framherjar landsins ákváðu í gær að leika með ÍBV næsta tímabil. Um er að ræða Viðar Örn Kjartansson frá Selfossi og Elías Inga Árnason frá ÍR.
Viðar Örn Kjartansson, 18 ára gamall sem hefur verið meðal efnilegustu leikmanna landsins undanfarin ár.
Hann var í lok tímabilsins valinn efnilegasti leikmaður 1. deildar í vali þjálfara og fyrirliða fyrir Fótbolta.net.
Hann yfirgefur nú lið Selfoss þar sem hann hefur leikið allan sinn feril. Hann hefur leikið með meistaraflokki síðan sumarið 2006 og síðan þá skorað 14 mörk í 50 leikjum fyrir liðið í deild og bikar.
Viðar hefur undanfarin tvö ár leikið með U17 og U19 ára landsliðum Íslands og skorað fjögur mörk í 8 leikjum með U17 ára liðinu auk þess sem hann lék tvo leiki með U19 ára liðinu í september, báða gegn Norður Írlandi.
Elías Ingi Árnason er mikill markaskorari og skoraði 21 mark í 19 leikjum með ÍR í sumar og varð markakóngur í 2. deild. Elías Ingi er sambýlismaður Thelmu Tómasdóttur (Dóttir Fanneyjar Ásbjörns og Tomma Jóh í Ísfélaginu) og eiga þau von á sínu fyrsta barni von bráðar (þ.e.a.s. Elías og Thelma).
Elías Ingi sem er 25 ára gamall framherji hefur leikið með ÍR undanfarin fjögur tímabil eða síðan hann kom til félagsins frá Tindastóli fyrir tímabilið 2005. Hann hefur leikið í 2. deild undanfarin sex tímabil og eina reynsla hans úr 1. deild var með Val í þremur leikjum 2003. Þar fyrir utan hafði hann ekkert leikið utan 2. deildar.
Elías Ingi er mikill markaskorari og á ferlinum hefur hann skorað 58 mörk í 104 leikjum í deild og bikar. Hann skoraði bæði mörk ÍR gegn ÍBV á Hásteinsvelli í sumar þegar þessi félög gerðu jafntefli 2-2 í bikarkeppninni. En þann leik jafnaði ÍBV í tvígang á síðustu stundu og vann að lokum í framlenginu.
Heimir Hallgrímsson er að vonum ánægður með þessa tvo nýju leikmenn.
Atli er búinn að vera eini framherjinn okkar í þessi tvö tímabil sem ég hef þjálfað og sem betur fer hefur hann staðið sig vel og skorað mikið þrátt fyrir að spila oft á tíðum hálf meiddur. Við höfum verið að leita að öðrum framherja allan þenna tíma en ekkert gengið. Hingað hafa komið framherjar frá Englandi, Danmörku, Suður Afríku og Brasilíu en engin náð að heilla okkur . Nú er komin tími til að velja íslenskt, er það ekki rétta leiðin í kreppunni?
,,Það var alltaf markmiðið að byrja á að finna framherja og þessir strákar voru efstir á óskalistanum mínum þrátt fyrir að hvorugur þeirra hafi spilað leik í efstu deild. Það er alltaf spurningamerki hvort þetta sé of stórt stökk fyrir þá, en þeir hafa báðir sama hæfileikann líkt og Atli þessir strákar, meðfæddan hæfileika til að skora mörk. Þegar þú hefur þann hæfileika getur þú sprungið út hvar sem er.
Þú getur búið góðan varnarmann og góðan miðjumann, en það er mjög erfitt að búa til góðan markaskorara. Sá eiginleiki að skora mörk kemur yfirleitt frá náttúrunnar hendi. Þeir eiga klárlega eftir að bæta sig þónokkuð til að ná úrvalsdeildarklassa og ég held að Vestmannaeyjar sé góður staður fyrir þá til að bæta það sem vantar uppá.
Það sem hreif mig við þá var hversu metnaðarfullir þessir strákar eru og hversu staðráðnir þeir eru í því að ÍBV væri rétti kosturinn fyrir þá. Það er eitthvað sem segir mér að þessir strákar eigi eftir að koma á óvart næsta sumar.
Meira um málið á fótbolti.net