Helgina 18.-20. apríl fór 5. flokkur kvenna á síðasta mót vetrarins. ÍBV fór með þrjú lið, eitt A-lið og tvö B-lið.
A-liðið spilaði í 2. deild og gekk þeim mjög vel þar sem þær lentu í öðru sæti. Þær unnu alla leikina sína nokkuð sannfærandi en töpuðu svo einum. Þær voru oft að spila mjög vel og sýndu skemmtilega takta. Þetta lið hefur spilað lengi saman og hefur mjög sterka liðsheild. Þetta er mjög góður árangur hjá þeim og var endanlegur árangur hjá þeim í Íslandsmótinu einnig mjög góður þar sem þær lentu í 6. sæti.
Þar sem við vorum með tvö B-lið þá var annað liðið að spila í 2. deild og hitt í 3. deild. B1 sem var í 2. deild vann einn leik. Þeir leikir sem töpuðust voru allir mjög jafnir og hefðu getað farið á hvorn veginn sem var. Liðið hefur sýnt miklar framfarir frá síðasta móti og voru allir leikmenn að standa sig mjög vel.
B2 sem var að spila í 3. deild stóðu sig líka mjög vel og lenti í þriðja sæti. Þær unnu tvo leiki og töpuðu tveimur. Það munaði ekki miklu að þær hefðu getað náð öðru sætinu. Þetta lið var líka að sýna miklar framfarir og var mjög gaman að fylgjast með þeim spila. Þær gáfust aldrei upp og sýndu mikla leikgleði og voru að spila saman sem lið.
5. flokkur kvenna hefur verið mjög öflugur flokkur í vetur þar sem hafa verið um 25 stelpur á æfingum. Það hefur fjölgað jafnt og þétt í vetur og margar nýjar bæst í hópinn. Þetta er mjög gott fyrir félagið og hvetur það þessar stelpur til að halda áfram að æfa því þær eru framtíðin.