Handbolti - Glæsilegur sigur á Stjörnunni

16.feb.2008  16:48

Það verður ekki annað sagt en að það hafi verið dramatík af bestu gerð þegar leik ÍBV og Stjörnunnar lauk í dag í N1 deild karla. Eyjamenn komu Garðbæingum í opna skjöldu og voru yfir allan leikinn, 17:15 í hálfleik. Þegar aðeins tvær sekúndur voru eftir var hins vegar jafnt, 33:33 en þá kórónaði Sergey Trotsenko stórleik sinn með því að negla boltanum inn, skora sitt fimmtánda mark og tryggja ÍBV um leið óvæntan en fyllilega verðskuldaðan sigur.

Eins og áður sagði voru Eyjamenn yfir nánast allan leikinn. ÍBV komst mest í 9:5 í fyrri hálfleik en gestirnir náðu alltaf að komast aftur inn í leikinn. Garðbæingar byrjuðu vel í síðari hálfleik, skoruðu tvö mörk á fyrstu mínútunni og jöfnuðu en Eyjamenn náðu aftur að komast yfir og leiddu lengst af með einu til þremur mörkum. Það var því svekkjandi fyrir Eyjamenn þegar Stjarnan jafnaði þegar um tuttugu sekúndur voru til leiksloka 33:33 en eins og kom fram hér að ofan var dramatíkin ótrúlega á lokasprettinum og lokatölur 34:33 fyrir ÍBV.

Eyjamenn áttu sigurinn skilið, leikmenn börðust og höfðu gaman af því sem þeir voru að gera. Í síðasta leik var það Sigurður Bragason sem bar uppi sóknarleik ÍBV. Nú var það Sergey Trotsenko og sóknarleikur Eyjamanna virkaði mjög vel allan tímann. Varnarleikurinn var einnig þokkalegur og Kolbeinn varði oft á köflum mjög vel. Eins og gefur að skilja fögnuðu Eyjamenn gríðarlega í leikslok, í raun eins og þeir hefðu orðið Íslandsmeistarar. Stjörnumenn gengu hins vegar vonsviknir af velli, og reyndar gott betur því tveir þeirra rifust eins og hundur og köttur og þurftu félagar þeirra að skilja þá að.

Með sigrinum færast Eyjamenn tveimur stigum nær Akureyri, sem er í sjötta sæti með tíu stig. Afturelding er í sjöunda sæti með sjö en ÍBV í því neðsta með fjögur. Og næsti leikur gæti ráðið því hvort Eyjamenn geri atlögu að úrvalsdeildarsætinu því þá leikur ÍBV á útivelli gegn Aftureldingu og verður vafalaust hart barist í Mosfellsbænum sunnudaginn 24. febrúar.

Mörk ÍBV: Sergey Trotsenko 15, Sigurður Bragason 8, Silvinas Grieze 4, Nikolay Kulikov 3, Sindri Haraldsson 2, Leifur Jóhannesson 1, Grétar Eyþórsson 1.
Varin skot: Kolbeinn Arnarson 15

Mörk Stjörnunnar: Ólafur Víðir Ólafsson 9, Vilhjálmur Halldórsson 6, Heimir Örn Arnarsson 6, Ragnar Helgason 5, Björn Friðriksson 1, Björgvin Hólmgeirsson 1, Patrekur Jóhannesson 1.
Varin skot: Styrmir Sigurðsson 10, Hlynur Morthens 3.

Tekið af Eyjafrettir.