Handbolti - Handbolti: Strákarnir til Eistlands á morgun - léku tvo æfingaleiki um helgina
19.ágú.2007 21:31
Meistaraflokkur karla í handboltanum er kominn á fullt í undirbúningi sínum fyrir komandi tímabil. Þeir héldu uppá fastalandið og léku tvo æfingaleiki um helgina, gegn Selfossi og Víkingi. Leikurinn gegn Selfossi var leikinn í gær, laugardag, og sigruðu strákarnir 34-32. Í dag var síðan leikið gegn Víkingi í Reykjavík og vannst sá leikur einnig, 34-29. Leikmenn og forráðamenn liðsins voru mjög ánægðir með leikina enda stilltu andstæðingarnir upp sínum sterkustu liðum en Eyjapeyjar stilltu upp
hálfgerðum kjúklingum eins og fyrirliðinn Sigurður Bragason hafði á orði í samtali við ibv.is. Siggi var markahæstur í þessum tveimur leikjum og Sindri Haraldsson og Brynjar Karl Óskarsson komu sterkir inn í varnarleiknum. Friðrik Sigmarsson, sonur eins besta markmanns á Íslandi fyrr og síðar, varði svo mjög vel í leiknum gegn Víkingi en fyrirliðinn sagði einnig að allir ungu strákarnir hefðu staðið sig með prýði.
Á morgun leggja svo strákarnir land undir fót er þeir halda alla leið til Eistlands í æfingaferð. Þeir fljúga út kl 6:40 í fyrramálið áleiðis til Stokkhólms þar sem þeir taka svo aðra vél sem flytur þá til höfuðborgar Eistlands, Tallinn. Í Tallinn munu þeir fá góðar móttökur en meistaralið Eista í handbolta, Pölva, mun taka á móti þeim við komuna. Strákarnir munu síðan halda í samnefndan bæ liðsins sem er 200 km fyrir utan Tallinn og dvelja þar í fjóra daga við æfingar auk þess að leika einn leik við meistarana. Eftir þessa fjóra daga verður síðan haldið til Tallinn á geysisterkt mót þar sem sex lið munu etja kappi. Liðin koma frá Hvíta-Rússlandi, Finnlandi, Svíþjóð, Eistlandi og Lettlandi og þrjú þessarra liða eru meistaralið í sínum löndum en það finnska, eistneska og hvít-rússneska eru þau sterkustu í sínum heimalöndum. Því er ljóst að um geysisterkt mót er að ræða og gaman fyrir strákana að prófa sig á móti þessum liðum.
Fyrirliðinn sagði ennfremur í samtali við ibv.is að strákunum hlakkaði mjög til fararinnar og góður mórall væri í hópnum. ,,Þetta er fríður hópur sem fer utan en samtals eru það 14 leikmenn og þrír fararstjórar sem fara. Þetta er kærkomin viðbót við undirbúningstímabilið og á bara eftir að þjappa hópnum enn betur saman. Við ætluðum reyndar upphaflega að fara til Litháens í æfingaferð enda Gintaras þjálfari þaðan, en hann náði ekki að finna neitt mót þar í landi. Vinur hans er að þjálfa meistaralið Eista, Pölva, og þeir buðu okkur bara á þetta sterka mót sem er bara alveg frábært."
Siggi sagði að góð sigurverðlaun væru í mótinu. ,,Já, það eru 2000 evrur (185.000) í sigurlaun í mótinu og við stefnum að sjálfsögðu á það. Annað sætið gefur svo 1500 evrur og þriðja sætið 1000 evrur. Við munum allir leggja enn meira á okkur útaf peningaverðlaununum og ekki skemmir fyrir að ákveðið hefur verið að þetta renni allt í leikmanna(bjór)sjóð að tímabili loknu," sagði hann að lokum og hló.
Eins og fyrr segir leggur hópurinn af stað snemma í fyrramálið og flýgur svo til baka þriðjudaginn 28. ágúst. ÍBV.is óskar hópnum góðrar ferðar og góðrar skemmtunar í þessari spennandi æfingaferð til Eistlands.