Handbolti - Handbolti: Liðsstyrkur fyrir veturinn

15.ágú.2007  15:23
Þorgils Orri Jónsson markvörður hefur ákveðið að spila á ný með ÍBV eftir að hafa spilað með ÍR síðasta vetur. Þorgils er að jafna sig af meiðslum og er gert ráð fyrir því að hann byrji að spila í nóvember. Hann mun í vetur æfa með Valsmönnum í Reykjavík en hann er við nám í höfuðborginni.
Hinn leikmaðurinn er frá Litháen og heitir Zilvinas Greze, kemur hann til ÍBV á eigin vegum en ÍBV sér um að redda honum vinnu og húsnæði. Gintaras þjálfari ÍBV þekkir Zilvinas og segir að þetta sé fjölhæfur leikmaður sem styrkir hópinn.
Fengið af www.eyjar.net


Í dag bárust einnig góðar fréttir fyrir handboltann en Sigþór Friðriksson hefur ákveðið að reyna sig aftur á handboltafjölunum en þessi sterki leikmaður hefur verið að berjast við hnémeiðsli í fjölda ára og hefur oftar en ekki þurft að hætta vegna þeirra. Hann sagði við ÍBV síðuna að hann þyrfti að fara í aðgerð næsta laugardag vegna rifins liðþófa. ,,Þetta kom í ljós í speglun núna í vor og aðgerðin er á laugardag. Liðþófinn er rifinn og ég ætla að vona að það sé ekki eitthvað meira en það. Ég er með smá áhyggjur af brjóskeyðingunni sem hefur verið að valda mér vandræðum í langan tíma og þurfti ég m.a. að hætta á sínum tíma útaf því en það ætti ekki tengjast þessu neitt. Ég er bara brattur á að ná mér eftir aðgerðina og líst vel á tímabilið. Vonandi næ ég að halda mér góðum í vetur og að liðið verði þokkalegt. Þetta verður erfiður vetur við vitum það en þjálfarinn er góður og hópurinn er efnilegur þannig að þetta er bara spennandi," sagði Sigþór að endingu.