Magnús Kristinsson útgerðarmaður og eigandi Toyota umboðsins á Íslandi og Jóhann Pétursson formaður ÍBV Íþróttafélags undirituðu í dag styrktarsamning milli handknattleiksdeildar ÍBV og Toyota á Íslandi. Samningurinn er til þriggja ára. Eins og kunnugt er er einnig í gildi samningur milli Toyota og knattspyrnudeildar ÍBV. Þetta mun vera í fyrsta skipti, sem mfl. félagsins bæði í handbolta og fótbolta hafa sama aðalstyrktaraðila.
Samningarnir eru afar hagstæðir íþróttahreyfingunni í Vestmannaeyjum, og ÍBV Íþróttafélag bindur miklar vonir við samstarfið við Toyota á Íslandi. Jóhann Pétursson, formaður ÍBV-Íþróttafélags hafði á orði að þetta væri gríðarlega mikilvægur samningur fyrir félagið og að styrkurinn í að hafa fengið Toyota til liðs við handboltann væri mikill. Magnúsi og fjölskyldu hans var þakkað mjög fyrir þeirra framlag til íþróttahreyfingarinnar í Vestmannaeyjum en vonandi verður samstarfið langt og farsælt.
Fjölmenni var við undirskriftina sem fór fram fyrir utan höfuðstöðvar Bergs-Hugins, útgerðarfyrirtækis Magnúsar. Eftir undirskrift var síðan boðið uppá pepsi og egils appelsín og stórglæsileg terta frá Arnóri bakara var á boðstólum en á tertunni var merki ÍBV við hlið merkis Toyota. Við hér á ibv.is smelltum nokkrum myndum og látum þær fylgja hér með.
Til hamingu ÍBV og Toyota með samninginn og megi hann verða báðum aðilum til mikilla heilla!