Handbolti - 1 deild: Sigurinn gegn Þór - upphafið að nýrri sigurbraut?
24.júl.2007 13:06
Eftir fjóra tapleiki í röð voru margir búnir að afskrifa ÍBV liðið í baráttunni um sæti í efstu deild. Meiðsli lykilmanna hafa á undanförnum vikum sett illilegan strik í reikninginn hjá þunnum hóp liðsins og þegar við bættust tveir lykilmenn í bann fyrir leikinn síðast gegn Þór, voru flestir ekkert alltof bjartsýnir á gott gengi í þeim leik. En Heimir þjálfari barði í mannskapinn að það þýddi ekki að væla um meiðsli endalaust. Þeir sem spila í hvert sinn verða einfaldlega að taka ábyrgð og hafa fyrir sínu en ekki skýla sig á bakvið þá sem kannski eru titlaðir lykilmenn og treysta á þá.
Í því liði sem ÍBV hefur á að skipa í dag eru kannski engir virkilegir lykilmenn. Hópurinn samanstendur af mörgum, ungum og góðum spilurum sem hafa allir eitthvað að færa til liðsins. Mikilvægasti hluti liðsins er einfaldlega liðsheildin, það er enginn ómissandi í hópnum. Þegar ÍBV liðið hefur leikið sem virkileg liðsheild í sumar þá hefur það líka sýnt að það er klassanum ofar en flest lið í þessari deild og á klárlega að vera meðal efstu þriggja. En leikirnir þar sem liðsheildin hefur skinið í gegn hafa einfaldlega verið of fáir, þrátt fyrir að ná ágætum úrslitum sem slíkum framan af móti.
Gegn Stjörnunni, Reyni í bikar og Þór Akureyri í síðasta leik var liðsheildin virkilega öflug og menn voru að berjast fyrir hvern annan. Enda náðust frábær úrslit úr þessum þremur leikjum. Ef þetta er eitthvað sem liðið nær að halda út leiktíðina, slíkri samstöðu og vilja í bland við þéttan varnarleik þá á liðið ekki að þurfa að lenda í neinum vandræðum það sem eftir lifir móts.
Vörnin var mjög góð gegn Þór
Það var mat flestra sem sáu leikinn gegn Þór síðast, að litli tjallinn á miðjunni, Ian Jeffs, hafi verið maður leiksins. Hann sagðist hafa verið mjög ánægður með leikinn og að ÍBV hefði verið mun betri aðilinn í leiknum en gerði þó lítið úr sínum eigin þætti, sagði vörnina hafa verið besta mann leiksins. ,,Öftustu fjórir stóðu sig mjög vel. Skipulagið var allt mikið betra en á móti Fjölni og menn voru að tala betur saman. Ég var þokkalega sáttur við minn leik gegn Þór en það var mun betri frammistaða en ég sýndi gegn Fjölni. Ég var eilítið ryðgaður gegn Fjölni enda hafði ég ekki spilað leik í næstum tvo mánuði fyrir Fjölnisleikinn. En ég spila vonandi vel það sem eftir er móts svo ég geti hjálpað liðinu að komast upp."
Pressuðum vel í fyrri hálfleik
,,Við áttum fyllilega skilið að vinna þennan leik. Við vorum kannski ekki með boltann allan tímann en við sköpuðum okkur fullt af færum og í raun öll færin sem urðu til í leiknum, því Þórsarar fengu einungis tvö hálffæri í öllum leiknum." Hann var ánægður með hvernig liðið pressaði Þórsarana í fyrri hálfleik sem hann sagði hafa heppnast fullkomlega. ,,Við unnum marga bolta ofarlega á vellinum sem gerði okkur auðveldara með að skapa færi og halda okkur ofarlega á vellinum. ,,Seinni hálfleikur var reyndar aðeins öðruvísi en sá fyrri. Þá vorum við á móti vindi og þeir reyndu að spila uppá mark strax í byrjun svo það var smá pressa á okkur en liðið varðist alveg gríðarlega vel, allir sem einn, og við beittum bara skyndisóknum í seinni hálfleik."
Jeffsie sagði að Eyjaliðið hefði getað skorað mun fleiri mörk en þessi tvö. ,,Ég átti eitt skot framhjá og svo reyndar eina hörmungar aukaspyrnu sem var í sannkölluðum rúgbý stíl," sagði hann og hló. ,,En ég skapaði nokkur færi, m.a. fyrir Stebba og Anton og fleiri sem þeir nýttu ekki. Einnig fékk nýji leikmaðurinn, Gústi, einhver færi sem hann brenndi af.
Verðum að vera klárir gegn Reyni
Næsti leikur liðsins er gegn Reyni á föstudaginn. Jeffsie segir að það hreinlega megi ekki vanmeta Reyni. ,,Við ætlum okkur að sjálfsögðu þrjú stig enda erum við með mikið betra lið en Reynir. Við megum hins vegar ekki vanmeta þá, við eigum að ráðast á þá strax í byrjun og klára leikinn. Þetta verður að sjálfsögðu erfiður leikur eins og allir en ef við mætum klárir og ráðumst á þá í byrjun þá eigum við að vinna Reynismenn. Þeir ætla sér líklegast að verjast allan tímann og senda alla mennina aftur fyrir boltann. Það er oft erfitt að brjóta slíkt niður og erfiðara en fólk gerir sér almennt grein fyrir sem hefur ekki spilað fótbolta. En við mætum klárir," sagði Jeffsie að endingu.