Handbolti - Líflegur aðalfundur ÍBV Íþróttafélags.

30.mar.2007  10:13

Aðalfundur ÍBV Íþróttafélags var haldinn í gærkvöld. Mjög fjörugar umræður urðu á fundinum um málefni félagsins. Hæst bar umræða um stöðu félagsins gagnvart bæjaryfirvöldum vegna byggingar knattspyrnuhúss. Ítrekað kom fram, að félagsmenn vilja að staðið verði við loforð bæjarstjórnar, um byggingu hússins. Margir lýstu einnig áhyggjum sínum yfir stöðu kvennaíþrótta hjá félaginu. Ljóst er að kvennaíþróttir í Eyjum eiga erfitt uppdráttar í mfl. bæði í knattspyrnu og handbolta. Samþykkt var tillaga, sem Viðar Elíasson bar upp, um könnun á verðmætasköpun í bænum vegna starfsemi ÍBV. Fundarmenn voru almennt á þeirri skoðun að starfsemi félagsins skapaði gífurleg verðmæti inn í bæjarfélagið. Tillaga Viðars er einmitt sett fram í þeim tilgangi, að leiða slíkt fram í dagsljósið. Stefáni Jónassyni upphafsmanni nýstofnaðs ferðasjóðs og Þór Vilhjálmssyni, sem sat í nefnd um stofnun sjóðsins, var þakkað þeirra framlag til eflingar íþrótta í Vestmannaeyjum, með lófaklappi.

Stjórn félagsins var öll endurkjörin, formaður er Jóhann Pétursson lögfræðingur.