Handbolti - Ferðajöfnunarsjóður--Ríkisstjórnin dregur lappirnar.

24.mar.2007  17:44

Nefnd, sem menntamálaráðherra skipaði til að koma með tillögur um jöfnun ferðakostnaðar hjá íþróttafélögunum, hefir skilað áliti sínu. Boltinn liggur nú hjá ríkisstjórnini. Eitthvað virðist málið flækjast fyrir ráðherrunum okkar. Eftir því, sem við komumst næst eru tillögur nefndarinnar á þá leið, að til úthlutunar verði tvívegis á ári milli 70-80 milljónir króna. Nærri má geta hversu miklir hagsmunir liggja í þessum sjóði, ef til kemur. Allir, sem starfað hafa innan íþróttahreyfingarinnar á landsbyggðinni vita, að ferðakostnaður er gjörsamlega að sliga þau íþróttafélög, sem þar starfa og eitthvað kveður að. Ljóst er að íþróttahreyfingin í Vestmannaeyjum á mikið undir, að sjóðurinn verði að veruleika. Því er skorað á stjórnvöld þessa lands, að klára þetta mál hið fyrsta. Eftir því, sem við komumst næst er málið klárt, aðeins eftir að samþykkja úthlutunarreglur osfrv. ÍBV Íþróttafélag væntir þess að ráðherrar, þingmenn og aðrir, sem láta sig málið varða, muni þrýsta á stjórnvöld, um farsæla lausn okkur til handa.

fóv.