Fótbolti - Góður 2-0 sigur gegn Fram í Lengjubikarnum

17.mar.2007  15:25

- Matt Garner meiddist illa í leiknum

M.fl. karla lék í Egilshöllinni í gærkvöld við Framara og lögðu þá bláklæddu með 2 mörkum gegn engu. Það var Bjarni Hólm Aðalsteinsson sem skoraði fyrra mark ÍBV með góðum skalla. Síðara mark ÍBV kom eftir gott upphlaup Stefáns Björns Haukssonar sem slapp einn inn fyrir vörn Framara og þennan dreng hleypur enginn uppi. Hann stakk af varnarmenn Framara og var felldur í vítateignum af markverði Framara, sem af einhverjum ástæðum fékk aðeins að líta gult spjald, en dómarinn hefur bara verið í góðu skapi og ekki verið að gera neitt frekara veður útaf þessu broti. Andri Ólafsson, sem kom inná síðustu 15 mínúturnar skoraði úr vítaspyrnunni. Var gaman að sjá kappann reima á sig skóna eftir meiðsli sem hann hefur glímt við í vetur.

Það setti skugga á leikinn að Matt Garner meiddist illa á ökla um miðjan síðari hálfleik og fór á slysadeild og þegar þetta er skrifað hafa ekki borist fréttir af niðurstöðu þeirra rannsókna sem hann fór í þar.

Næsti leikur ÍBV í Lengjubikarnum verður fimmtudaginn 29. mars kl. 19 á gervigrasvellinum í Laugardal, gegn Þrótti Reykjavík og daginn eftir leikinn flýgur liðið til Albir á Spáni í æfingaferð.