Handbolti - Fréttir af handboltanum

16.feb.2007  12:00

Heimskur-?

Eins og greint hefur verið frá í fréttum undanfarna dag hafa orðið talsverðar breytingar á kvennaliði ÍBV. Því miður hefur hópur kvennaliðsins ekki verið stór í vetur og nú er verið að berjast við það að halda liðinu úti bæði leikmannalega séð og fjárhagslega og því miður hefur það verið mjög erfitt verk.

Ef við byrjum á leikmannamálum kvennaliðsins í vetur, þá var ástæða þess að hornamaðurinn Andrea Löw frá Ungverjalandi fór aftur heim sú að bróðir hennar lenti í mjög slæmu umferðaslysi og hún þurfti að hjálpa fjölskyldunni heima við og fór frá okkur í október sl. Við og markmaðurinn gerðum fyrir nokkrum dögum starfslokasamning við hana að hennar frumkvæði vegna þess að hún átti í meiðslum að stríða og hún skyldi áhyggjur félagsins að gengi liðsins í deildinni og fjárhag þess. Félagið gerði að fullu upp við hana allar sínar skuldbindingar og báðir aðilar skilja sáttir. Einnig var gerður starfslokasamningur við örfhentu skyttuna Valentinu Radu frá Rúmeníu. Það var að frumkvæði ÍBV þar sem hún hafði átt við meiðsli að stríða og var ekki að standa undir þeim væntingum sem við gerðum til hennar. Allar skuldbindingar klúbbsins til hennar hafa verið gerðar upp.

Nú er staða félagsins sú að við getum stillt upp 9 manna hóp í mfl. kvenna, þar af eru 2 stúlkur úr fjórða flokki og 3 úr unglingaflokki. Þannig að við höfum 4 leikmenn sem eru á mfl. aldri í kvennaliðinu. Þetta er því miður mjög slæmt og erfitt að halda úti æfingum sem og halda liðinu í keppni en við höfum reynt að leita allra leiða til að halda liðinu úti og munum reyna að berjast áfram næstu daga og vikur í því.

Karlaliðið er á fínu róli í 1 deild og hafa verið að standa sig vel í vetur. Nokkuð þéttur hópur af reyndum og síðan efnilegum drengjum sem hafa lagt sig fram í vetur og uppskorið eftir því.

Þær sögur um að ÍBV standi ekki við launagreiðslur eru úr lausu lofti gripnar en því miður virðist það sérstakt áhugamál handboltafólks á fastalandinu að velta sér upp úr því. Félagið hefur reynt eftir öllu megni að standa við sínar skuldbindingar og klárað sínar launagreiðslur við leikmenn og þjálfara er þeir yfirgefa félagið. Félagið mun halda áfram á þeirri braut þetta tímabil sem og önnur sem liðin eru. Eins og gengur og gerist eru laun ekki ávallt á réttum tíma en flestar launagreiðslur á þessu tímabili eru á góðu róli.

Við höfum því miður ekki náð að tryggja fjárhag deildarinnar eins og við vonuðum m.a. vegna þessa að erfiðlega hefur gengið að finna aðalstyrktaraðila, RÚV og HSÍ hafa sýnt landsbyggðinni algjört skilningsleysi í beinum útsendingum undanfarin ár sem er jú lykillinn í að fá styrktaraðila. Vinnubrögð þessara aðila er algjörlega til skammar og er mér til efins að það hafi verið sýndir fleiri en 1-2 deildarleikir frá kvennaliðinu í beinni útsendingu í Eyjum síðustu sjö keppnistímabil þótt ÍBV liðið hafi ávallt verið í 1-2 sæti á þessum árum og hampað m.a. Íslandsmeistaratitlinum fjórum sinnum á þessu tímabili. Það getur varla talist sanngjarnt eða hvað?

Dómarar á Íslandi virðast einnig búa í einhverri glerhöll þar sem ekki má áreita þá nema þeir dæmi aðila án þess að sakborningurinn fái að verja sig. Slík vinnubrögð þekkjast ekki nema hjá Einræðisherrum og við vitum öll hvernig vistin hefur verið hjá þeim í gegnum aldirnar. Dómarar eins og aðrir verða að sýna metnað í starfi og leggja sig fram um að fylgja þeim reglum sem eru í nútíma handbolta þar sem peysutog, snerting í andlit og gróf brot eru umsvifalaust tveggja mínúta brottvísun. Þegar líf dómara og fólks sem starfar í handboltanum snýst orðið eingöngu um peninga þá eigum við að hugsa okkar gang í þessu. Þar sem við erum það lítil hreyfing og fátæk að við getum ekki látið okkar starf snúast um launaumslagið heldur hjartað sem segir okkur að við elskum handbolta. Þegar dómarar misstíga sig illilega eins og gerðist á síðasta keppnistímabili er handknattleiksdeild ÍBV kærði dómararann Anton Pálsson fyrir óeðlileg afskipti af leik ÍBV og Vals í mfl. kvenna. Vegna hótana hans í garð þjálfara liðs ÍBV um að flauta leikinn af ef ÍBV spilaði leikinn ekki á tilteknum tíma, eitthvað sem er alls ekki á hans verksviði að ákveða leiktíma og hvað þá vera með hótanir. Hvernig tók dómaraforystan á því máli, sópaði því undir borð eins og þeim einum er lagið. Í gegnum aldirnar hafa Einræðisherrar haldið sinni stöðu með því að kúga fólk og berja niður alla þá sem ekki eru sammála þeirra skoðunum og hugmyndum. En við vitum öll hvað gerist á endanum, fólkið rís upp og kemur Einræðisherrunum frá völdum. Dómaranefnd má eins og aðrir taka sig á sínu starfi, til að mynda var haldið dómarnámskeið í haust þar sem áhugasamt ungt fólk tók dómarpróf og eflaust einhver þeirra náð prófinu. Lofað var að senda út skírteinin nokkrum dögum síðar, nú eru þessir dagar orðnir af vikum og mánuðum og enn ekkert bólað á að senda þeim skírteini sem náðu prófi þannig að það geti stigið sína fyrstu braut á dómarabrautinni með HREINA samvisku. E.t.v. er ekki þörf á nýjum og ferskum dómurum með tilskilin réttindi í hreyfingunni.

Það er margt hér í Eyjum sem við megum bæta og er undirritaður ekki til fyrirmyndar í mörgum málum. Eflaust er ég Heimskur, en spurningin er hvort að aðrir geti e.t.v. verið ?? Enn ég hvet okkur öll sem elskum handbolta og sérstaklega ferskt fólk í hreyfingunni að efla kraftinn í sínum klúbbum þannig að handboltinn megi vaxa og dafna á komandi árum.

Hlynur Sigmarsson