Við sem búum á landsbyggðinni þurfum því miður sífellt að vera að berjast fyrir okkar rétti þar sem það er þannig að þau sem búa í turnunum virðast ekki vilja skilja það að það eru reknar handknattleiksdeildir út á landi sem vilja sambærilega þjónustu og önnur lið landsins.
Þannig er mál með vexti að RÚV og/eða HSÍ vilja ekki sýna frá leikjum á landsbyggðinni. Er það sorglegt ef RÚV hugsar þannig þar sem hér er um að ræða opinbert fyrirtæki sem er rekið með skattheimtu á alla íbúa landsins og rökin fyrir þeirra rekstri er að það sé vegna öryggissjónarmiðs og að sinna menningarmálum og landsbyggðinni. En því miður er RÚV alls ekki að standa sig í þessu.
Spurningin er einnig hvað HSÍ er að gera í þessum efnum það sem það er HSÍ sem selur RÚV réttinn á að sýna frá leikjum og það hlítur að vera ein af kröfum HSÍ að sýnt sé frá leikjum á landsbyggðinni einnig.
Maður veltir því einnig fyrir sér hvers vegna stórfyrirtæki eins og DHL sem er aðalstyrktaraðili deildarinnar og RÚV á þessum sýningum láti það líðast að ekki sé sýnt beint frá leikjum á landsbyggðinni. Er það virkilega stefna þess fyrirtækis?
Mér finnst það persónulega vanvirðing af hálfu HSÍ, RÚV og DHL gagnvart landsbyggðinni að ekki sé sýnt beint frá deildarleikjum landsbyggðarliða. Ég vona að þau fari að girða sig í brók og sýni okkur landsbyggðarpakki virðingu með því að láta okkur njóta sammælis.
Þetta hefur þau áhrif að erfiðara er fyrir landsbyggðarlið að fá styrktaraðila þar sem lítil sjónvarpsumfjöllun er frá leikjum liðanna á heimavelli þar sem helsti möguleikinn er fyrir liðin að selja fyrirtækjum auglýsingar.