Handknattleiksdeild ÍBV mun því miður þurfa að endurskipuleggja rekstur sinn. Á næstu dögum verður tekin ákvörðun um hvernig staðið verður að henni. Ákvörðun verður tekin eigi síðar en föstudaginn 17. nóvember n.k.
Ég velti fyrir mér orðum okkar ágætis bæjarstjóra á vef Eyjafrétta þar sem hann segir orðrétt "Verum stolt af því hversu margir það eru sem vilja kalla sig Eyjamenn, og stöndum vörð um okkar helsta einkenni sem er samstaða og gleði."
Því miður hef ég ekki orðið var við þessa samstöðu Eyjamanna er kemur að málefnum handknattleiksdeildar ÍBV. Til að mynda sendum við út bænarskjal á heimasíðu ÍBV þann 31. október sl. um það hvort að einhver ágætur "Eyjamaður" eða "Eyja" fyrirtæki gætu hjálpað okkur í að finna aðalstyrktaraðila. Þessi sama beiðni var birt í Vaktinni í sömu viku og barst því í öll hús í bænum. Niðurstaða þessa bænaskeytis okkar var sú að enginn "Eyjamaður" hefur haft samband við okkur út af þessu. Aðalstjórn ÍBV-íþróttafélags eða einhver stjórnarmaður hennar hefur heldur ekki haft samband við okkur. Einn aðili hefur haft samband við okkur og hann kemur af höfuðborgarsvæðinu og er alls ekki neinn "Eyjamaður" heldur starfar hann í öðru liði og ætlaði hann að reyna að aðstoða okkur eftir megni.
Enn annars eru helstu ástæður þess að við þurfum að endurskipuleggja reksturinn eftirfarandi:
1. Ekki hefur tekist að fá aðalstyrktaraðila.
2. Fyrirtæki og aðilar ("Eyjamenn") sem hafa sambönd í stórfyrirtæki landsins hafa ekki verið tilbúin að beita sér okkur til aðstoðar.
3. RÚV (RÍKISútvarp "sumra" landsmanna) hefur ekki létt okkur lífið að finna styrktaraðila þar sem það hefur alls ekki sýnt leiki frá okkar liðum í Deildarkeppni undanfarin ár þrátt fyrir góðan árangur. Hefur RÚV og aðalstyrktaraðili HSÍ, DHL þar með stórlega mismunað landsbyggðinni.
4. HSÍ (mótanefnd) hefur ekki verið tilbúið að hjálpa okkur að ná ferðakostnaði niður með hliðurun á leikdögum og leiktímum. Ekki hefur hið háa Alþingi heldur enn getað komið sér saman um frumvarpið um "Ferðajöfnunarsjóð" til að hjálpa landsbyggðinni í þessum efnum.
5. Kostnaður deildarinnar hefur verið erfiður undanfarin ár og þarf stjórnin nú að líta í eigin barm og taka sig taki í þeim efnum.
6. Peningar sem deildin átti von á frá styrktaraðilum hafa ekki skilað sér og það íþyngt deildinni.
7. Allt of fáir einstaklingar koma orðið að rekstri deildarinnar þrátt fyrir viðleitni hennar til að leita að nýju fersku fólki.
Þannig að niðurstaðan er sú að deildin þarf að taka sig í algjörlega naflaskoðun næstu daga og meta hvernig verður tekið á þessum málum og taka ákvörðun eigi síðar en föstudaginn 17. nóvember n.k.