Handbolti - 4.flokkur karla tók 4 stilg af 6 mögulegum

06.nóv.2006  13:24

4. flokkur karla B lið lék um helgina gegn Hetti Egilsstöðum þrjá leiki hér í Vestmannaeyjum. Höttur teflir aðeins fram einu liði og er það skráð sem B lið. Leiknir voru þrír leikir í Eyjum þannig að þá þarf ÍBV ekki að fara á Egilsstaði í vetur.

Fyrsti leikurinn var á laugardaginn kl. 13.30 og var forleikur fyrir meistaraflokksleikinn. ÍBV hafði frumkvæðið allan leikinn ekki síst fyrir góða markvörslu Kristgeirs Orra Grétarssonar. Eftir venjulegan leiktíma var ÍBV einu marki yfir en Hattarmenn náðu að jafn úr aukakasti eftir leiktíma. Í heild spilaði ÍBV ágætlega. Mörk ÍBV í þessu leik skoruðu: Sveinn Sigurðsson 6 mörk og sýndi fádæmi öryggi í vítaköstum, Guðjón Orri Sigurðsson með 4, Kjartan Guðjónsson og Daði Már Sigurðsson með þrjú hvor og Þorgeir E. Ágústsson með 1.

Annar leikurinn var kl. 18:00 á laugardaginn. Þar hafði ÍBV góð tök á leiknum allan tímann og hafði fimm marka forskot í hálfleik 12-7. Leiknum lauk síðan með öruggum sigri ÍBV 18-13. Mörk ÍBV skoruðu: Guðjón Orri Sigurðsson 6. Kjartan Guðjónsson 4. Þorgeir E. Ágústsson 3. Sveinn Sigurðsson 2 og Jón Jakob Magnússon, Bjarki Þ. Ingason og Friðrik Sigurðsson 1.

Þriðji leikurinn var síðan á sunnudagsmorguninn. Hattarmenn komu ákveðnir til leiks og ætluðu að taka bæði stigin. Náðu þeir fljótlega góðu forskoti og mest fjórum mörkum. Í hálfleik var staðan 11-8 fyrir Hött. En ÍBV gafst ekki upp og með harðfylgni náðu þeir að jafna leikinn undir lokin og komast yfir. Að lokum lauk leiknum með jafntefli 17-17 og máttu Hattarmenn þakka fyrir það.

Mörk ÍBV skoruðu: Sæþór Heimisson, Bjarki Ingason og Jón Marvin Pálsson 3 hver. Þorgeir E. Ágústsson, Kjartan Guðjónsson og Guðjón Orri Sigurðsson 2 hver. Sveinn Sigurðsson og Daði Már Sigurðsson 1 hver.

Í heild sinni spilaði ÍBV ágætan handbolta. Boltinn gekk vel og þegar að menn börðust í vörninni þá komust Hattarmenn lítt áleiðis. Fyrir aftan vörnina stóð Kristgeir Orri síðan vaktina og varði mjög vel í öllum leikjunum. Markadreifingin er nokkuð jöfn yfir allt liðið.

Næsti leikur liðsins er um næstu helgi gegn B liði Fram sem er sterkt lið. Leikurinn er á laugardaginn kl. 11:00