Eyjamenn eru komnir í 16 liða úrslit bikarkeppninnar eftir góðan sigur á Gróttu 29:25. Leikurinn var í járnum nánast allan tímann en undir lokin náðu Eyjamenn fimm marka forystu sem dugði til sigurs. Undir lok leiksins gerði Grétar Þór Eyþórsson, hornamaðurinn knái í ÍBV sig sekan um glórulaust brot þegar hann skallaði markvörð gestanna og fékk umsvifalaust krossinn.
Markvörður gestanna varði tvívegis frá Grétari, fyrst úr vítakasti en Grétar náði frákastinu en aftur varði markvörðurinn. Þeim lenti saman inni í vítateig eftir síðara skotið og lét markvörðurinn, Kári Garðarsson Grétar heyra það og gekk full vasklega fram í því. Grétar brást hins vegar afar klaufalega við því og skallaði Kára beint fyrir framan dómarana. Brot Grétars verðskuldaði ekkert minna en krossinn en dómaraparið hefði með réttu átt að vísa markverðinu út af enda hann alls ekki saklaust fórnarlamb þó svo að ekkert afsaki framkomu Grétars.
Annars var leikur Eyjamanna ágætur og reyndar góður síðasta stundarfjórðunginn þegar þeir náðu þægilegri forystu eftir að liðin höfðu skipst á að skora. Varnarleikur Eyjamanna var til fyrirmyndar og Jóhann Ingi Guðmundsson var í banastuði í markinu og varði 20 skot, þar af eitt víti. Það er ljóst að Eyjamenn eru ekki á flæðiskeri staddir varðandi markverði enda hafði Kolbeinn Arnarson varið mark ÍBV af stakri prýði í meiðslum Jóhanns Inga.
Samherjar skjóta hvor á annann
Sigurður Bragason, fyrirliði ÍBV var sáttur í leikslok. "Þetta var hörkuleikur en samt fannst mér við vera betri en um helgina þegar við lékum gegn þeim. Ég reyndar bjóst við þeim grimmari en við vorum að spila mjög vel taktískt og vorum bara að spila góðan handbolta. Þetta er ungt lið hjá okkur, Erlingur er eini sem er gamall enda er hann eini á fertugsaldri en við hinir eru allir ungir að árum," sagði hinn 29 ára gamli Sigurður en þess má geta að Erlingur stóð við hliðina á honum.
"Það er búinn að vera stígandi í þessu hjá okkur, við erum bara að verða betri með hverjum leik og þannig á það að vera. Vörnin er að verða betri og markvarslan er búin að vera frábær hjá okkur í undanförnum leikjum. Sóknarleikurinn er líka að verða betri og ungu strákarnir eru að fá sjálfstraust," sagði Erlingur og bætti því við að það væri ekki nema hálft ár í að Sigurður yrði kominn á fertugsaldurinn.
Mörk ÍBV: Erlingur Richardsson 7, Leifur Jóhannesson 6, Sigþór Friðriksson 5, Sigurður Bragason 4, Óttar Steingrímsson 4, Grétar Þór Eyþórsson 2, Daði Magnússon 1.
Varin skot: Jóhann Ingi Guðmundsson 20/1.
Það má sjá viðtal á Halli TV í enn betri gæðum en áður.