Stuðningurinn metinn á 40 milljónir

08.okt.2006  03:12

Ísfélag Vestmannaeyja hf. og Vinnslustöðin hf. hafa gert samstarfssamning við ÍBV íþróttafélag um stuðning við starfsemi meistaraflokka og unglingaráða karla og kvenna í knattspyrnu og handknattleik. Samningarnir gilda til ársloka 2008 og voru undirritaðir í lokahófi knattspyrnudeildar ÍBV í gærkvöld. Stuðningur fyrirtækjanna tveggja á samningstímanum er metinn á um 40 milljónir króna og skiptir í raun sköpum fyrir rekstur ÍBV íþróttafélags.

Mikilvægur þáttur stuðningsins eru tveir 17 sæta Ford Transit bíla sem Vinnslustöðin og Ísfélagið hafa þegar keypt og afhent ÍBV íþróttafélagi til afnota. Þeir koma í stað bíla sömu tegundar sem ÍBV íþróttafélag hafði á rekstrarleigu frá árinu 2003 með stuðningi fyrirtækjanna tveggja. Bílarnir eru aðallega notaðir til að keppnisferða á fastalandinu og notkun þeirra hefur orðið til að minnka stórlega ferðakostnað sem greiddur er úr sjóðum ÍBV íþróttafélags. Enn meiri fjármunir sparast við að ÍBV íþróttafélag hefur nú eignast bílana.

Í samstarfssamningunum er ennfremur kveðið á um beina fjárstyrki til ÍBV íþróttafélags og til knattspyrnudeilda, handknattleiksdeilda og unglingaráða beggja deilda. ÍBV íþróttafélag kynnir í staðinn þessa stuðningsaðila sína á kappleikjum og við önnur tækifæri, í auglýsingum blaða á sínum vegum og með merkingum á nýju bílunum.

Sjálfur boðskapur nýju samninganna skiptir samt mestu máli þegar upp er staðið, þ.e. sá sameiginlegi ásetningur Ísfélagsins, Vinnslustöðvarinnar og ÍBV íþróttafélags að stuðla að áframhaldandi blómlegu starfi knattspyrnu- og handknattleiksdeildanna í Eyjum og gefa ekkert eftir þó á móti kunni að blása á stundum.

Forráðamenn fyrirtækjanna tveggja lögðu mikla áherslu á að barna- og unglingastarf nyti góðs af stuðningnum sem kveðið er á um í samstarfssamningunum. Jafnframt verði stefnt að því að meistaraflokkar karla og kvenna, bæði í knattspyrnu og handknattleik leiki ávallt í efstu deildum og með þeim bestu.