Það er engin önnur en landsliðsmarkvörðurinn Branka Jovanovic sem mun verja mark stúlknanna í vetur. Hún er yngri systir Jelönu sem var í Stjörnunni til margra ára og varði þar við góðan orðstír. Branka er 35 ára og hefur gífurlega mikla reynslu úr alþjóðlegum bolta bæði með félagsliðum sem og landsliði. Hún hefur verið fastamaður í serbneska landsliðunu á undanförnum árum sem og nú og á að baki 150-200 A landsleiki.
Hún hefur m.a. verið fyrirliði landsliðsins undanfarin ár. Þá hefur hún einnig leikið með öllum yngri landsliðunum. Hún lék á síðasta keppnistímabili með SönderjyskE frá Danmörku sem lék í efstu deild þar í landi en féll því miður niður um deild. Branka hefur leikið með mörgum af frægustu og bestu liðum heims og má þar m.a. nefna Krim frá Slóveníu, Kometal frá Makedóníu, Din Nis frá Serbíu.
Hún hefur unnið nánast allt sem hægt er í handbolta með félagsliði en á enn eftir að vinna titla hér á landi.
Ef við kíkjum aðeins á afrekalistann hennar:
Evrópumeistari Meistaraliða árið 2001 með Krim frá Slóveníu.
Tvisvar sinnum unnið Evrópukeppni Bikarhafa, árið 1992 og 1994 með Radnicki Belgrad frá Júgóslavíu.
Fjórum sinnum Slóvenskur meistari með Krim.
Fjórum sinnum Slóvenskur bikarmeistari með Krim.
Tvisvar sinnum Makedónskur meistari með Kometal.
Tvisvar sinnum Makedónskur bikarmeistari með Kometal.
Einu sinni Serbneskur bikarmeistari með Din-Nis.
Einu sinni Júgóslavneskur bikarmeistari með Radnicki Belgrad.
Silfur á heimsmeistarmótin A-landsliða sem fram fór í Kóreu árið 1990.
Valinn besti markmaður Heimsmeistarmóts leikmanna 20 ára og yngri í Nígeríu árið 1989.
Við bindum miklar vonir við Brönku í vetur og bjóðum hana velkomna í ÍBV.
Við munum færa ykkur frekari fréttir af leikmannamálum handboltaliðanna okkar á miðvikudaginn.