Handbolti - ÍBV-Breiðablik á Hásteinsvelli í kvöld kl 19:15

18.júl.2006  11:26

- Gríðarlega mikilvægur leikur hjá strákunum

Í kvöld klukkan 19:15 fer fram leikur ÍBV og Breiðabliks í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Liðin tvö sitja hlið við hlið á botni deildarinnar og því ljóst að um gríðarlega mikilvægan leik er að dæma. Stutt er í næstu lið fyrir ofan og liðið sem fer með sigur af hólmi í kvöld nær að lyfta sér upp í 6.sæti deildarinnar.

Páll Hjarðar verður í banni í leiknum í kvöld eftir rauða spjaldið umdeilda í leiknum gegn Keflavík en á móti kemur að Bandaríkjamaðurinn Mark Schulte er kominn með leikheimild og verður því klár í slaginn gegn strákunum úr Kópavoginum. Hjá Blikum hefur ýmislegt gengið á undanfarið. Bjarni Jóhannsson, fyrrum þjálfari ÍBV, hætti með liðið fyrir skömmu og við tók Hafnfirðingurinn Ólafur Kristjánsson sem þjálfaði Fram á síðasta tímabili. Arnar Grétarsson er kominn aftur til síns gamla félags eftir langa dvöl erlendis og mun hann leika sinn fyrsta leik í kvöld.

Það er því ljóst að ærin ástæða er fyrir Eyjamenn að fjölmenna á völlinn í kvöld og styðja strákana til sigurs. Sjaldan eða aldrei hefur deildin verið svona jöfn og stutt er á milli liða í topp- og botnbaráttu. Áhorfendur geta lagt sín lóð á vogarskálarnar með því að fjölmenna á Hásteinsvöll í kvöld, kalla áfram ÍBV og svo vonandi fagna með strákunum í lokin.

ÁFRAM ÍBV !