Handbolti - Mikilvægt að vinna í dag, þriðjudag

02.maí.2006  02:45
Segir Alfreð Finnsson, þjálfari ÍBV
Alfreð Finnsson, þjálfari ÍBV var ánægður með að vera kominn í úrslit Deildarbikarkeppninnar. Hann segir í stuttu spjalli það vera erfitt hlutskipti fyrir ÍBV að vera búið að vinna Íslandsmeistaratitilinn en þurfa svo að taka þátt í nýrri keppni. Eftir að ÍBV hafði misstigið sig í fyrsta leik Deildarbikarkeppninnar telur hann hins vegar að liðið sé búið að finna fjölina að nýju og sé komið á sigurbraut. Hann telur viðureignina gegn Val í úrslitum geti orðið skemmtileg.

Þú hlýtur að vera ánægður með að vera kominn í úrslit Deildarbikarkeppninnar?
”Já ég er mjög ánægður með það. Ég veit ekki alveg hvernig maður fór inn í þessa keppni því það var rosalega löng pása frá síðasta leik í Íslandsmótinu og maður vissi ekki alveg hvernig við vorum stemmdar. Þetta er ný keppni og við sýndum það eiginlega á þriðjudagin að okkur var alveg sama. Það er auðvitað voðalega skrýtið að vera búinn að draga að landi stærsta titil vetrarins, sjálfan Íslandsmeistaratitilinn og þurfa svo að fara æfa aftur og taka þátt í nýrri keppni. En eins og hefur komið fram þá eru stór peningaverðlaun í boði fyrir félagið en leikmenn horfa ekki endilega á það. Stelpurnar hafa hins vegar sýnt það að þær hafa metnað og hjarta fyrir klúbbinn og fyrir hver aðra. Þær börðust alveg stórkostlega á fimmtudaginn og léku svo nánast eðlilegan leik í dag, sunnudag. Við misstum Renötu útaf með rautt spjald og þær náðu að minnka muninn niður í þrjú mörk en við þjöppuðum okkur aftur saman. Það finnst mér vera styrkleikamerki hjá okkur. Ýmsir spekingar hafa verið að finna að leikmannahópnum hjá okkur, að hann sé kannski ekki sá sterkasti í deildinni en ég held að við höfum sannað það í dag að við erum sterkasta liðið og með fleiri en einn eða tvo leikmenn sem geta tekið við kyndlinum.” Byrjunin lofaði ekki góðu, Stjarnan komst í 3-0 og þið skoruðuð ekki mark fyrstu sex mínúturnar. Þú hefur ekkert verið farinn að hugsa um að fyrsti leikurinn myndi endurtaka sig? ”Ég hugsaði reyndar um það þegar við höfum stundum lent undir. Þá er eins og við séum ekki tilbúnar í upphafi en alltaf höfum við byrjað eftir svona 5-10 mínútur og unni þá leiki nokkuð sannfærandi. Ég var ekkert farinn að örvænta. Við lentum í þessu líka í oddaleik gegn Stjörnunni í úrslitum í fyrra, þá komust þær í 3-0 en svo tókum við þann leik með glans þannig að ég var alveg rólegur.”

Nú mætið þið Val í úrslitum. Hvernig líst þér á það?
”Í sjálfu sér skiptir ekki öllu máli hvaða liði við mætum. Valur hefur spilað vel að undanförnu og hafa nánast bara tapað fyrir okkur eftir áramót. Ég veit að þær verða alveg kexbrjálaðar gegn okkur og þetta verður örugglega skemmtileg rimma. Þetta eru tvö bestu lið Íslandsmótsins og ég held að það sé bara fjör framundan. Liðin eru ólík, Valur spilar ákveðið og sækja hratt á meðan við leggjum áherslu á góðan varnarleik og getum líka sótt hratt ef við viljum.”

En þið ætlið væntanlega ekki að fara sömu leið og gegn Stjörnunni? Er ekki mikilvægt að vinna fyrsta leikinn?
”Jú ég held að við séum að komast í gang núna og ég held að við verðum að vinna á þriðjudaginn. Við unnum okkur núna út úr erfiðri stöðu eftir að hafa tapað á þriðjudaginn en ég held að við ættum að reyna komast almennilega af stað með sigri á þriðjudag. Renata verður í banni í útileiknum og þess vegna gott að vera yfir í viðureigninni,” sagði Alfreð að lokum.

Viðtal og mynd tekin af www.eyjafrettir.is