- Oddaleikur í Vestmannaeyjum á sunnudag
Í kvöld fór fram annar leikur ÍBV og Stjörnunnar í 4-liða úrslitum deildarbikars kvenna í handknattleik. Leikurinn fór fram í Garðabæ og með sigri hefðu Stjörnustúlkur getað tryggt sér sæti í úrslitum keppninnar, en þær unnu sigur í fyrsta leik liðanna í Vestmannaeyjum. En svo fór í kvöld að stelpurnar okkar unnu öruggan sigur og liðin mætast því í oddaleik á sunnudaginn í Vestmannaeyjum.
ÍBV hóf leikinn af miklum krafti og var ljóst á leik þeirra að leikmenn ætluðu sér ekki að fara í sumarfrí að leik loknum. ÍBV skoraði fyrstu 5 mörk leiksins og vissu Stjörnustúlkur vart hvaðan á sig stóð veðrið, þær voru óöruggar í leik sínum og áttu fá svör við frábærum varnarleik ÍBV og góðri markvörslu Florentinu Grecu. Munurinn hélst út hálfleikinn en mest náði Stjarnan að minnka muninn í 10-6. En þá spýttu stelpurnar okkar í lófana og náðu 7 marka forystu fyrir lok fyrrii hálfleiks og staðan 13-7 í hálfleik.
Seinni hálfleikur þróaðist svipað og sá fyrri. ÍBV var ávallt með yfirhöndina og náðu leikmenn Stjörnunnar sér engan veginn á strik og fóru illa með hverja sóknina á fætur annarri. Mestur varð munurinn 10 mörk, 20-10 og sést á þessum tölum hversu varnarleikur ÍBV var sterkur því þegar 48 mínútur voru liðnar af leiknum hafði Stjarnan einungis náð að skora 10 mörk. Garðbæingar náðu þó að minnka muninn í lokin og voru lokatölur 21-15, góður sigur í Garðabænum og ljóst að úrslit í einvíginu ráðast í oddaleik á sunnudaginn en liðð sem kemst í úrslit mun mæta Valsstúlkum sem slógu út Hauka í tveimur leikjum.
Pavla Plaminkova var markahæst hjá ÍBV í kvöld með 6 mörk og Simona skoraði 5. Florentina varði um 20 skot í markinu, þar af 3 vítaköst. Rakel Dögg Bragadóttir var atkvæðamest hjá Stjörnunni og skoraði 6 mörk.