Stórskemmtilegur leikur
Það var kátt í Íþróttahöllinni í dag þegar Eyjamenn tóku á móti Stjörnunni. Talsverðar breytingar hafa orðið á liði ÍBV, tékknesku leikmennirnir Michal Dostalik og Jan Vitipl voru utan við hópinn og Sigurður Bragason, fyrirliði er meiddur. Auk þess tók Þorgils Orri Jónsson stöðu Björgvins Páls Gústavssonar í markinu og stóð heldur betur fyrir sínu. Að lokum voru það Eyjamenn sem unnu sannfærandi sigur gegn Stjörnunni, lokatölur urðu 32:27.
Eins og áður sagði var lið ÍBV talsvert breytt, þannig var Grétar Eyþórsson lengst af í skyttuhlutverkinu en þessi ungi handknattleiksmaður spilar ávallt í horninu. Þar var hins vegar annar ungur og efnilegur leikmaður, Sævald Hallgrímsson og í hinu horninu var Jens Kristinn Einarsson. Í hjarta varnarinna var svo Daði Ólafsson sem lét heldur betur til sín taka en allt eru þetta strákar sem eru enn í 2. flokki.
Leikurinn var rólegur framan af enda höfðu liðin að engu að keppa. Engu að síður var meira líf í leik ÍBV og voru Eyjamenn fimm mörkum yfir í hálfleik, 17:12. Leikur ÍBV byggðist fyrst og fremst á sterkum varnarleik og stórgóðri markvörslu Þorgils Orra sem varði í það heila 22 skot. Þegar á leið skapaðist mikil stemmning, bæði meðal leikmanna og áhorfenda og líklega aldrei verið jafn gaman á karlaleik í vetur. Það var eins og einhverri pressu væri létt af leikmönnum ÍBV að eiga ekki lengur möguleika á sæti í efri deild á næsta tímabili því allir voru að skemmta sér á vellinum, nema helst Stjörnumenn. Enda voru það "litlu" strákarnir sem stálu senunni í stórskemmtilegum leik. Mestur varð munurinn átta mörk í síðari hálfleik, 31:23 þannig að sigur ÍBV var mjög öruggur.
Hins vegar eiga Eyjamenn ekki lengur möguleika á að spila í efri deild að ári en engu að síður stórskemmtilegur leikur.
Mörk ÍBV: Mladen Cacic 13/4, Ólafur Víðir Ólafsson 6, Erlingur Richardsson 4, Grétar Þór Eyþórsson 4, Sævald Hallgrímsson 3, Jens Kristinn Einarsson 2.
Varin skot: Þorgils Orri Jónsson 22, Jóhann Ingi Guðmundsson 1/1, Björgvin Páll Gústafsson 2/2.