4. fl. karla lék þrjá leiki sl. helgi. Fyrirfram var ljóst að um erfiða leiki yrði að ræða. 2. deildinni var skipt í tvo riðla. ÍBV dróst gegn Stjörnunni, Aftureldingu og KA. Öll þessi lið voru annaðhvort búin að tryggja sig í 8 liða A úrslit eða að keppa um það. Í hinum riðlinum voru liðin Haukar, Valur, Víkingur, Grótta og Völsungur. Af þeim liðum hafði ÍBV í vetur lagt af velli bæði Víking og Val og tapað mjög naumlega gegn Gróttu. Völsungur er síðan slakasta liðið af þessum öllum. Þessi röðun liða var því dálítið undarleg þegar að styrkleiki þessara liða er metinn.
En svona var þessu raðað. ÍBV lék fyrst gegn KA á laugardaginn sl. 3-2-1 vörn ÍBV gekk ekki sem skyldi í fyrri hálfleik en sóknarleikurinn var ágætur. 7 mörk skildi í hálfleik. Þá var skipt í 5-1 vörn sem hélt miklu betur og lauk leiknum með 10 marka sigri KA. Á sunnudeginum var leikið gegn Aftureldingu sem hafði unnið Stjörnuna deginum áður. Afturelding var að koma úr 1. deild. Um hörkuleik var að ræða og var jafnt á öllum tölum. Í hálfleik hafði Afturelding eins marks forystu. Leiknum lauk síðan með tveggja marka sigri Aftureldingar en um mjög jafnan leik var að ræða. Þetta er án efa einn besti leikur sem 4. fl. hefur spilað á þessari leiktíð, bæði í vörn og sókn. Túrneringunni lauk síðan með leik gegn Stjörnunni. Þá var sem allur vindur væri úr ÍBV og léku þeir mjög illa. Leiknum lyktaði með öruggum 14 marka sigri Stjörnunnar sem hafði þó tapað báðum leikjum sínum.
Í heild sinni má segja að margt gott sást í þessum leikjum. 5-1 vörnin stóð sig vel og spilaði Bragi Magnússon þar á miðjunni eins og herforingi. Í sókninni mæddi mest á þeim Þórarni Inga Valdimarssyni, Brynjari Karli Óskarssyni, Vigni Stefánssyni og Hjalta Pálssyni. Komust þeir vel frá sínu og þegar að boltinn fékk að ganga og beðið var eftir góðum færum þá komu þau. Vandamálið var fyrst og fremst óþolinmæði sem gerði vart við sig of oft. Þá spilaði Bjarki Ómarsson í markinu allan tímann og varði oft ágætlega en í heildina var markvarslan ekki nógu góð og þar þarf að bæta sig.
Næsta túrnering er úrslitatúrnering og spilar ÍBV þar í 2. deild. Hún er um helgina 8-9 apríl n.k.