Handbolti - Ótrúlegur sigur á Stjörnunni

07.feb.2006  23:57

Viðtöl og SIGURMARKIÐ á Halli TV

Það var ótrúlegur endir á leik okkar stúlkna gegn Stjörnunni í kvöld er Simona skoraði beint úr aukakasti þegar leiktíminn var úti. Það voru flestir búnir að bóka jafntefli en Simona var á öðru máli og tryggði stúlkunum tvö stig. Við þetta braust út trylltur gleðidans á leikvellinum sem og pöllunum og gleðin tók tauminn hjá Eyjafólki.

Það blés nú ekki gæfurlega við okkar stúlkum í upphafi leiks og náði Stjarnan fljótlega 5 marka forystu sem þær héldu fram undir lok fyrri hálfleiks er okkar stúlkur náðu að minnka muninn niður í 11-14 með marki frá Renötu á síðustu sekúndum leiksins. Það var ekki gaman að sjá spilamennskuna hjá stúlkunum í upphafi leiks. Það virtist vanta allan neistann og baráttuna en hana hafði Stjarnan nóg af.

Í upphafi síðari hálfleik fór blóðið aðeins að renna í okkar stúlkum og þær byrjuðu að meiri krafti en í þeim fyrri enda veitti ekki að. Þær náðu að jafna leikinn í 16-16 og náðu síðan frumkvæðinu í kjölfarið. Okkar stúlkur náðu m.a. þriggja marka forystu 23-20 en þá hrökk í baklás hjá þeim og Stjarnan náði að jafna úr vítakasti þegar 5 sekúndur voru eftir, 23-23. Þá tók Alfreð leikhlé og við það er leiktíminn var að renna út fékk Ingibjörg gott færi en brotið var á henni og ÍBV fékk aukakast. Það var mikil spenna er klukkan sýndi að leiktíminn var liðinn og Stjarnan stilti upp í hávörn fyrir framan Simona sem bjó sig undir að taka aukakastið. Flestir í salnum bjuggust við að hún mundi nú ekki ná að skora og leikurinn færi jafntefli, en viti menn knötturinn söng í markinu og allt varð vitlaust í húsinu. Gríðarleg fagnaðarlæti og okkar stúlkur fögnuðu sigri.

Markaskorarar ÍBV voru:

Pavla 9/3, Simona 6, Renata 4/1, Ingibjörg 2, Elísa 1, Ester 1 og Ragna Karen 1.

Florentina var að verja vel í síðari hálfleik en náði sér engan veginn á strik í þeim fyrri frekar en allt liðið. Hún náði að verja 18 skot í öllum leiknum.

Markaskorarar Stjörnunnar voru:

Jóna Margrét 9/5, Rakel 6/2, Elzbieta 3, Kristín 2, Hind 2 og Elísabet 1.

Jelana stóð vaktina í Stjörnumarkinu og varði vel, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Dómarar leiksins voru:

Ingvar Guðjónssson og Jónas Elíasson

Áhorfendur:

Í kringum 250

Leiktími:

Þriðjudagur 7. febrúar 2006, kl. 19:15