Handbolti - Stelpurnar komnar í undanúrslit

17.jan.2006  22:05

Í kvöld áttust við ÍBV og HK í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handknattleik. Liðin áttust við fyrr í vetur og þá voru ÍBV stúlkur í vandræðum með frískar HK stelpur. Nú var allt annað uppi á teningunum og áttu stelpurnar okkar ekki í miklum vandræðum í Digranesinu, lokatölur leiksins voru 29-19 og stelpurnar því komnar í undanúrslit bikarsins.

Jafnt var á með liðunum í byrjun leiks og jafnt var á öllum tölum þar til staðan var 5-5. Þá skildu leiðir og skoruðu ÍBV 10 af næstu 11 mörkum leiksins og staðan skyndilega orðin 15-6. Vörn ÍBV small saman á þessum tíma og skoraði liðið mörg mörk úr hraðaupphlaupum auk þess sem Flora í markinu var að verja vel, þrátt fyrir að hafa meiðst í upphitun og ekki getað beitt sér sem skyldi. HK stelpur náðu að skora síðustu tvö mörk hálfleiksins og staðan í hálfleik 15-8 ÍBV stelpum í vil.

Í seinni hálfleik héldu ÍBV stelpur áfram og náðu mest 12 marka forystu, 24-12. Eftir það jöfnuðust leikar og bæði lið leyfðu öllum leikmönnum sínum að spila. Lokatölur leiksins voru 29-19, öruggur sigur Eyjastúlkna sem voru ánægðar í leikslok enda komnar í undanúrslit bikarsins. Liðið var að spila ágætlega en þarf að vera á tánum í næsta leik þegar þær mæta Haukum að Ásvöllum. Sá leikur er gríðar mikilvægur í baráttunni um titilinn og ef stelpurnar mæta tilbúnar í þann leik þá verður um jafnan og spennandi leik að ræða.

Mörk ÍBV : Pavla 9, Ragna Karen 7, Ingibjörg 5, Hanna Carla 2, Renata 2, Simona 2, Ester 1 og Hekla 1. Flora varði 23/2 skot í markinu og lokaði markinu á köflum. Vonandi nær hún að jafna sig fullkomnlega af þessum meiðslum því hún er liðinu mikilvæg í markinu

Mörk HK : Aukse Vysniauskiak 6, Tatjana Zukovska 3, Arna Sif Pálsdóttir 2, Hjördís Rafnsdóttir 2, Brynja Magnúsdóttir 2, Auður Jónsdóttir 2, Líney Guðmundsdóttir 1 og Ásta Gunnarsdóttir 1.

Næsti leikur er eins og áður segir gegn Haukum á laugardaginn kemur að Ásvöllum í Hafnarfirði. Leikurinn hefst klukkan 14 og eru Eyjamenn á höfuðborgarsvæðinu hvattir til að mæta og styðja stelpurnar í baráttunni.