Handbolti - Vinnusigur á HK

11.jan.2006  23:30

Viðtöl sem tekin voru eftir leik eru á Halli TV

Stúlkurnar okkar báru sigurorð á HK í kvöld 31-26 eftir að ÍBV hafði leitt í hálfleik 18-14. Þetta var fyrst og fremst vinnusigur og ekki var spilamennska okkar stúlkna upp á marga fiska í þessum leik. Þetta var svona liggur við jafn slæmt og loðnuleysið þessa dagana. En sigur er í höfn og 2 stig í höfn og það er víst sem telur að lokum.

Það var HK sem byrjaði leikinn betur og leiddi þetta með 1-2 mörkum en mikið var um mistök frá fyrstu mínútum leiksins og einkenndist leikurinn nokkuð af því. Það var síðan um miðjan fyrri hálfeik að okkar stúlkur sigu fram úr og leiddu eins og áður sagði 18-14 í hálfleik.

Í síðari hálfleik tókst HK stúlkum að minnka muninn niður í 22-20 en lengra komust þær ekki og okkar stúlkur sigu fram úr og náðu að innbyrða fimm marka vinnusigur, 31-26 eins og áður sagði.

Einkenni leiks okkar stúlkna var óskynsemi og tæknimistök. En það er vonandi að þeim takist að lagfæra það fyrir næstu leiki sem eru liðinu mjög mikilvægir.

Markaskorarar hjá ÍBV voru:

Renata 10, Ingibjörg 7, Simona 5, Pavla 4, Ragna Karen 3 og Ester 2.

Flora var í markinu mest allan tímann og varði ágætlega. Síðustu mínúturnar kom í markið ein af efnilegustu handboltastúlkum okkar Eyjamanna, Heiða Ingólfsdóttir sem enn er aðeins í 4. flokki. Það var gaman að sjá svona efnilega unga stúlku að vera að stíga sín fyrstu skref í meistarfaflokki og full ástæða til að óska henni til hamingju með það.

Markaskorarar hjá HK voru:

Auksé 8, Arna Sif 7, Tanja 5, Rut 3, Brynja 2 og Auður 1.

Það var gaman að sjá til HK liðsins með sitt starf og full ástæða til að bjóða þær velkomna í deildina og óska þeim velfarnaðar á næstu árum.

Dómarar:

Bjarni Ingimarsson og Júlíus Sigurjónsson. Ekki í fyrsta skipti sem þeir hafa komið til Eyja í vetur.

Áhorfendur:

Það var nú ekki fjölmenni á leiknum en um 200 manns mættu þó til að sjá leikinn.