Handbolti - Stelpurnar lögðu Gróttu

09.jan.2006  02:26

Stelpurnar okkar gerðu góða ferð á Seltjarnarnesið sl. laugardag þegar þær sigruðu Gróttu, 31-25, í fyrsta leik DHL-deildar kvenna á árinu 2006. Boðið var uppá fínan handbolta á Nesinu og þurftu Eyjastelpur að hafa fyrir sigrinum þó hann væri tiltölulega öruggur undir lokin. Staðan í hálfleik var 12-14 gestunum í vil.


Góð byrjun Gróttu
Heimamenn í Gróttu byrjuðu leikinn af krafti og voru mun fljótari að hrista af sér ryðið eftir langt jólafrí. Grótta komst í 3-0 áður en Eyjastelpur skoruðu sitt fyrsta mark, á sjöttu mínútu leiksins, og höfðu heimamenn frumkvæðið í leiknum nánast allan fyrri hálfleikinn.
ÍBV náðu að minnka muninn í 3-2 og eftir skiptust liðin á að skora þar til staðan var 12-10 Gróttu í vil. Þá tók Kári Garðarsson þjálfari Gróttu leikhlé, en sóknaleikur Gróttu var byrjaður að hiksta full mikið fyrir hans smekk. Í kjölfarið sko náðu Grótta ekki að skora síðustu sjö mínútur hálfleiksins á meðan ÍBV skoraði 4 mörk og staðan í hálfleik því 12-14.

Öruggt hjá ÍBV eftir hlé
Varnarleikur Gróttu var ágætur þar til þær misstu Kristínu Þórðardóttur útaf með þrjár brottvísanir snemma í seinni hálfleik. Eini sóknarmaður ÍBV sem gat eitthvað framan af leik var Simona Vintilá og þegar heimamenn tóku hana úr umferð snemma í fyrri hálfleik riðlaðist leikur ÍBV mikið og voru heimamenn í raun klaufar að vera ekki nokkrum mörkum yfir í hálfleik. Flest marka ÍBV í fyrri hálfleik komu eftir hraðaupphlaup eða hraða miðju en hraðar sóknir gestanna voru mjög vel útfærðar og var ásamt Florentinu Grecu í markinu ástæða þess að Grótta var ekki með gott forskot í hálfleik.
Lið Gróttu var ekki tilbúið að gefast upp þó ÍBV héldi tveggja til þriggja marka forskoti í framan af seinni hálfleiknum en þegar leið á leikinn náðu gestirnir mest sex marka forskoti sem Grótta náði aldrei að minnka í minna en fimm mörk og því var sigur ÍBV í raun öruggur.
Ef undan eru skildar fyrstu 20 mínútur leiksins lék lið ÍBV mjög vel í dag. Grecu varði vel í markinu og vörn liðsins var þokkaleg. Sóknarleikurinn gekk vel er leið á leikinn. Renata Horvat var iðin við markaskorun og nýtti vítin sín vel. Ingibjörg Jónsdóttir átti frábæran seinni hálfeik og Simona Vintilá átti mjög góðan leik en hún var tekin úr umferð lengst af. Hin 17 ára gamla Ester Óskarsdóttir átti mjög góða innkomu í leikinn, sem var gaman að sjá.
Lið Gróttu er ungt og efnilegt og létu sér reyndari og sterkari andstæðinga virkilega hafa fyrir sigrinum í dag. Íris Björk Símonardóttir átti mjög góðan dag í markinu og Ivana Veljkovic var góð í skyttunni. Gerður Einarsdóttir átti fína spretti í leiknum en það veikti lið Gróttu að Kristín fékk snemma tvær mínútur í leiknum og gat ekki beitt sér sem skildi í varnarleiknum en hún fékk sína þriðju brottvísun þegar rúmar 20 mínútur voru eftir af leiknum og gekk varnarleikur liðsins ekki eins vel án hennar.

Vörnin klikkaði
Kári Garðarsson þjálfari Gróttu var ekki tilbúinn að segja leikhlé sitt í fyrri hálfleik hafi verið vendipunkturinn í leiknum heldur benti réttilega á að fát var komið á sóknarleikinn áður en hann tók leikhléð. “Við stjórnuðum hraðanum í leiknum fyrstu 20 mínúturnar og voru með þetta í okkar höndum. Við áttum nokkra góða sénsa til að koma þessu í þrjú til fjögur mörk og setja þær uppvið vegg en þetta gekk stirðlega síðustu mínútur hálfleiks og við misstum þær framúr okkur af því við fórum að taka of stuttar sóknir og tókum óþarflega erfið færi í stað þess að sýna meiri þolinmæði í sókninni. Þær nýttu sér þetta og sóttu hratt á okkur en maður má ekki missa lið eins ÍBV framúr sér, þá verður þetta alltaf erfitt.”
Kári var nokkuð sáttur við sóknarleik sinna manna en saknaði Kristínar í vörninni. “Kristín er algjör lykilmaður í vörninni hjá okkur og varnarleikurinn eftir að hún fékk rautt var ekki góður. Þó ÍBV hafi misst tvo leikmenn nýlega þá eru þær með frábæra leikmenn í nánast öllum stöðum og með sérstaklega sterkt byrjunarlið. Þær eru bara of sterkar til að missa svona frá sér nema maður sé með full skipað lið allan tímann.”

Það kemur maður í manns stað
Alfreð Finnsson, þjálfari ÍBV, var að vonum ánægður í leikslok eins hans er vona og vísa eftir sigurleik. “Ég er mjög ánægður með stigin tvö enda er þetta mjög erfiður völlur að koma á. Þær eru ótrúlega skynsamar, spila vel saman og eru góðar í vörn. Í ljósi þess er ég mjög ánægður með að skora 31 mark en ég hefði viljað fá á mig aðeins færri mörk.”
Eyjastelpur byrjuðu leikinn ekki vel og vill Alfreð ekki kenna ryði um það. “Ryð er bara léleg afsökun enda hafa þær verði í jafn löngu fríi og við. Við vorum slakar fyrstu 20 mínútur leiksins og það var einhver pirringur í liðinu og stress. Við náðum að berja okkur saman og ná forystunni fyrir leikhlé sem var mjög gott.”
Þrátt fyrir að vera yfir og með þægilegt forskot lengst af seinni hálfleiknum þá leið Alfreð aldrei eins og þetta væri létt. “Þetta var mjög erfitt og þær voru aldrei langt undan. Ég var nokkuð sáttur við sóknarleikinn en vörnin var ekki nógu góð og það er eitthvað sem þarf að laga.”
Eva Björk Hlöðversdóttir og Nikolett Varga leika ekki meira með ÍBV það sem eftir er leiktíðar en þær eru báðar barnshafandi. “Það má vera að einhverjum finnist þetta veikja okkar lið en við lítum ekki svoleiðis á þetta. Það kemur alltaf maður í manns stað og ég var mjög ánægður með yngri stelpurnar í liðinu sem komu sterkar inn í dag og þetta er bara skemmtileg áskorun fyrir okkar lið.”

Gangur leiksins: 3-0, 3-2, 12-10, (12-14) , 12-15, 16-20, 17-22, 18-24, 25-31

Mörk Gróttu:
Ivana Veljkovic 10/2 (19/2)
Gerður Einarsdóttir 5/4 (10/5)
Karen Smidt 3 (4)
Hera Bragadóttir 3 (6)
Kristín Þórðardóttir 1 (2)
Karólína B. Gunnarsdóttir 1 (3)
Arndís M. Erlingsdóttir 1 (3)
Varin skot:
Íris Björk Símonardóttir 15/1, þar af 5 til mótherja (45/4)
Guðrún Maríasdóttir (1/1)
Hraðaupphlaup: 2
Karólína
Arndís
Fiskuð víti: 7
Hera 2
Karen 2
Ivana
Gerður
Kristín
Utan vallar: 8 mínútur

Mörk ÍBV:
Renata Horvat 8/5 (11/6)
Ingibjörg G. Jónsdóttir 7 (8)
Simona Vintilá 7 (9)
Pavla Plaminkova 4 (13)
Ester Óskarsdóttir 3 (3)
Ragna Karen Sigurðardóttir 2 (5)
Varin skot:
Florentina Grecu 17, þar af sex til mótherja (42/6)
Hraðaupphlaup: 5
Ester 2
Renata
Ragna
Simona
Fiskuð víti: 6
Renata 2
Ingibjörg
Pavla
Ragna
Simona
Utan vallar: 12 mínútur

Dómarar: Stefán Arnaldsson og Gunnar Viðarsson. Mjög góðir eins og þeirra er von og vísa. Það var áberandi lítið tuðað í dómurunum sem mætti sjást oftar í handboltanum.

Tekið af www.sport.is