Handbolti - Goran Kuzmanoski yfirgefur ÍBV

03.des.2005  12:09
Makedóníska skyttan Goran Kuzmanoski er hættur að leika með ÍBV og mun halda af landi brott fljótlega. Goran, sem er rétthent skytta, fann sig ekki vel í upphafi leiktíðar en var farinn að sækja í sig veðrið. Hins vegar virtist áhuginn fyrir því að standa sig hjá leikmanninum ekki vera til staðar og fékkst það svo staðfest í gær þar sem hann óskaði eftir því að vera leystur undan samningi við liðið. Kristinn Guðmundsson, þjálfari ÍBV staðfesti þetta í samtali við eyjafrettir.is og bætti því við að Eyjamenn hefðu gert allt sem þeir gátu til þess að láta honum líða vel. "Hann kvartaði ekki undan mér sem þjálfara eða leikmönnum þannig að það var eitthvað annað sem var að angra hann. Ég veit það hins vegar að handknattleiksráð gerði mikið fyrir hann og reyndu að sannfæra hann um að vera áfram en hann vildi fara."

Brottför Gorans kemur á slæmum tíma fyrir Eyjamenn þar sem liðið leikur mikilvægan heimaleik gegn Selfyssingum á morgun, laugardag. Auk Gorans fór Davíð Þór Óskarsson frá liðinu fyrr í vetur og hafa Eyjamenn því misst báðar rétthentu skytturnar sínar. "Ég veit að þetta veikir okkur á pappírnum en ég þykist líka vita að þetta komi til með að styrkja okkur inni á vellinum. Við erum með leikmanna eins og Sigurð Bragason sem getur vel leyst þessa stöðu og nú kalla ég bara á meiri ábyrgð af hans hálfu. Svo hefur Ríkharð Bjarki Guðmundsson verið að æfa þessa stöðu og er að bæta sig jafnt og þétt og hann mun fá fleiri tækifæri. Við komum ekki til með að sakna Gorans úr varnarleiknum því hans hlutverk er auðvelt að fylla og ég tel okkur geta leyst hlutverk hans í sókninni.