Viðtal á Halli TV
Eyjamenn tóku í kvöld á móti KA í DHL deild karla. Hlutskipti liðanna er nokkuð ólíkt í deildinni, KA menn eru rétt fyrir ofan miðja deild á meðan ÍBV var í næst neðsta sæti. Eftir jafnar upphafsmínútur tóku KA menn góðan sprett undir lok fyrri hálfleiks, röðuðu hreinlega inn mörkunum og breyttu stöðunni úr 8:8 í 8:12. Staðan í hálfleik var svo 12:15. Reyndar hefði hún átt að vera 13:15 því Björgvin Páll Gústafsson þrumaði boltanum þvert yfir völlinn þegar leiktíminn var að renna út, boltinn fór í þverslánna og niður og þegar myndbandsupptaka er skoðuð sést að boltinn er vel fyrir innan línuna en markið var ekki dæmt gilt og ekki í síðasta sinn sem það gerðist hjá afar slöku dómarapari leiksins.
Eyjamenn voru svo ekki lengi að jafna leikinn í upphafi síðari hálfleiks og eftir það skiptust liðin á að skora. Bæði lið náðu um tíma tveggja marka forystu en stuttu síðar var aftur orðið jafnt. Eyjamenn náðu m.a. að komast tveimur mörkum yfir þegar aðeins rétt rúmar tvær mínútur voru eftir en KA jöfnuðu af miklu harðfylgi, 32:32.
Eyjamenn fengu tækifæri til að vinna leikinn þegar hálf mínúta var eftir. Sigurður Bragason sendi línusendingu á Svavar Vignisson sem hreinlega var togaður niður aftan frá og með réttu hefðu Eyjamenn átt að fá víti og tveggja mínútna brottvísun. En sem fyrr voru dómarar leiksins allt annað en hliðhollir Eyjamönnum og hallaði verulega á heimamenn í leiknum. Þeir svartklæddu toppuðu svo frammistöðu kvöldsins á lokakaflanum þegar þeir vissu varla hvort leikurinn væri búinn eða ekki, gáfu Svavari rautt spjald án þess að refsa Hreiðari Guðmundssyni, markverði KA þó svo að þeir báðir hafi verið í slagsmálum.
En í heildina voru úrslitin sanngjörn, leikurinn var jafn ef undan eru skildar síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks þegar KA menn náðu fimm marka forystu. En ÍBV er sem fyrr í næst neðsta sæti deildarinnar með sjö stig eftir tíu leiki en þrjú önnur lið fyrir ofan ÍBV hafa sama stigafjölda.
Mörk ÍBV: Goran Kuzmanovski 9/2, Ólafur Víðir Ólafsson 7/4, Jan Vtipil 7, Svavar Vignisson 4, Grétar Þór Eyþórsson 3, Sigurður Bragason 1, Michel Dostalik 1. Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 19 (þar af 2 aftur til mótherja)
Myndir frá leiknum má sjá á myndasafninu.