Fótbolti - Búið að ráða Sigurlás

16.nóv.2005  13:49

Eins og greint var frá í Fréttum í síðustu viku stóðu yfir viðræður við Sigurlás Þorleifsson, knattspyrnuþjálfara um að halda áfram með kvennalið ÍBV út næsta tímabil. Sigurlás staðfesti þessar fréttir en í kvöld var gengið frá áframhaldandi samning og mun hann því sjá um þjálfun meistaraflokks kvenna út tímabilið 2006.

Nýskipað knattspyrnuráð kvenna hefur látið hendur standa fram úr ermum þá rúmu viku sem ráðið hefur starfað. Nú er búið að ráða þjálfara og viðræður við leikmenn eru þegar hafnar. Ráðið hefur skipt með sér verkum, Styrkár Jóhannesson er formaður ráðsins, Óðinn Sæbjörnsson varaformaður, Magnea Bergvinsdóttir er gjaldkeri, Karen Tryggvadóttir ritari og meðstjórnendur eru Arndís Sigurðardóttir, Júlía Tryggvadóttir og Þóra Ólafsdóttir en þau Styrkár og Magnea voru einnig í knattspyrnuráði á síðasta tímabili.

Arndís sagði í samtali við Eyjafréttir að mikil bjartsýni væri innan ráðsins. "Við ætlum að snúa vörn í sókn og erum bjartsýn á framhaldið. Við erum búin að setja okkur í samband við leikmenn og munum halda því áfram á næstu dögum. Auk þess erum við komin með stóran hóp fólks á lista sem mun vinna náið með ráðinu þannig að við erum að búa okkur til mikið og gott bakland fyrir kvennaknattspyrnuna í Vestmannaeyjum."

frétt birtist á www.eyjafrettir.is