Um helgina voru margir leikir á dagskrá hjá yngri flokkunum. Bæði 2. og 3.flokkur karla léku hérna heima en unglingaflokkur kvenna og A lið 4.flokks kvenna léku upp á landi.
2.flokkur karla.
2.flokkur karla lék bikarleik á laugardaginn við Selfoss og var þetta fyrsti leikur þeirra í vetur. Leikurinn var jafn og spennandi allan tíman og í hálfleik var staðan 10-11 fyrir gestina. Seinni hálfleikurinn bauð upp á sama fjörið og fyrri hálfleikur hafði gert en því miður náðu strákarnir ekki að landa sigri, töpuðu 22-24.
Markaskorarar: Grétar Eyþórsson 7, Jens Kristinn Elíasson 5, Pálmi Harðarson 4, Sævald Hallgrímsson 4, Eyþór Björgvinsson og Daði Ólafsson 1 mark hvor. Þorgils Orri Jónsson stóð í markinu allan tíman og varði vel.
Næstu leikir eru 24. og 25. nóvember nk. við Hauka og Selfoss, en það eru hvorutveggja útileikir.
3.flokkur karla.
Það var einnig bikarleikur hjá 3.flokki á laugardaginn, eins og hjá 2.flokki var það Selfoss sem að var andstæðingurinn. Selfoss er með tvö lið í 3.flokki og voru andstæðingarnir Selfoss 2. Okkar menn áttu ekki góðan dag og töpuðu frekar stórt, 18-25 en staðan í hálfleik var 9-11.
Markaskorarar: Daði Magnússon 6, Óttar Steingrímsson 3, Björn Kristmannsson 3, Kristinn Árnason 2, Þórhallur Friðriksson, Bergur Páll Gylfason, Guðjón Ólafsson og Sæþór Garðarsson 1 mark hver.
Friðrik Þór Sigmarsson átti fínan leik og varði 14 skot.
Á sunnudeginum léku þessi sömu lið á Íslandsmótinu og vannst sá leikur frekar létt 31-21. Ótrúleg umskipti á leik liðsins, allt liðið var að leika vel og var greinilegt að leikmenn voru ekki sáttir við að vera slegnir út úr bikarnum daginn áður.
Markaskorarar: Daði Magnússon 7, Óttar Steingrímsson og Björn Kristmannsson 5 mörk hvor, Sæþór Garðarsson og Þórhallur Friðriksson 4 mörk hvor, Bergur Páll Gylfason 3, Kristinn Árnason 2 og Kolbeinn Aron Arnarson 1.
Friðrik Þór Sigmarsson varði 20 skot í leiknum.
Næsti leikur hjá 3.flokki er nk. laugardag, en þá fá þeir Stjörnuna í heimsókn.
Unglingaflokkur kvenna.
Stelpurnar léku tvo leiki upp á landi um helgina, fyrri leikurinn var við Fylki á laugardaginn og töpuðu stelpurnar 28-24. Á sunnudagsmorgun var leikið við HK og tapaðist sá leikur frekar stórt 35-25. Við höfum því miður ekki fengið upplýsingar um markaskorara í þessum leikjum. Stelpurnar leiku tvo leiki á heimavelli um næstu helgi og eru þeir báðir við Fylki.
4.flokkur kvenna.
2.umferð 4.flokks kvenna A liða fór fram um helgina og léku stelpurnar 4 leiki. Það gékk ekki vel hjá stelpunum, unnu einn leik og töpuðu þremur.
Stelpurnar sigruðu ÍR 14-10, en töpuðu fyrir Fram 13-19, Fylki 16-19 og HK 16-21.
Þessar sömu stelpur léku einnig í bikarkeppninni um þessa helgi og unnu þær Fylki 2 12-11, og eru því komnar í 16 liða úrslit.
Við höfum ekki fengið upplýsingar um markaskorara úr þessum leikjum. Bæði A og B lið keppa um næstu helgi í bikarkeppninni, B liðið á leik við Víking hér heima á laugardag og A liðið á útileik við Gróttu á sunnudag.