-stjörnuleikur og stjörnuhrap
Um helgina spilaði unglingaflokkur kvenna tvo leiki. Á föstudagskvöldið var leikið gegn ríkjandi íslandsmeisturum Stjörnunnar. Stelpurnar mættu gríðarlega einbeittar til leiks og náðu upp góðri stemningu og vörn. Náðu þær mjög fljótlega góðri forystu og leiddu í hálfleik með 11 mörkum 20-11. Seinni hálfleikurinn var nánast formsatriði og unnu stelpurnar leikinn að lokum með 8 marka mun 32-24. Vörnin og markvarslan skópu þennan örugga og jafnframt ánægjulega sigur. Gaman að sjá að stelpurnar eiga vel heima meðal þeirra bestu, með svipaðri spilamennsku verður veturinn ánægjulegur. Heiða varði um 18 bolta í markinu. Mörkin skoruðu: Ester 8, Sæunn og Hekla 7, Sara og Nína 5.
Á sunnudagsmorgun var svo leikið í bikarkeppninni gegn Fram 2. Stelpurnar sýndu vægast sagt allar sínu verstu hliðar og töpuðu sannfærandi 27-21. Ótrúlegur viðsnúningur á spilamennsku liðsins og grátlegt að horfa á leik þess.
Heiða varði 14 bolta í markinu. Mörkin skoruðu: Ester 9, Sæunn 5, Nína 4,Sara 2 og Sædís 1.
Það er eflaust erfitt fyrir okkar lið að vera heila helgi uppi á landi og spila tvo leiki ásamt því að flestar stelpurnar spila með meistaraflokki liðsins einnig. Þetta er nú engu að síður það sem við þurfum að venjast og afsakar ekki spilamennsku liðsins. Bæði leikmenn og þjálfarar þurfa að hugsa betur um undirbúning fyrir mikilvæga leiki og við erum ekki komin á þann stall að geta vanmetið andstæðinga okkar, af þeim mistökum þurfum við að læra.
Framtíðin er björt hjá stelpunum okkar og nú er svo komið að nokkrar af leikmönnum unglingaflokks bera mikla ábyrgð í meistaraflokki. Það er stefna félagsins að geta látið heimastelpur leika stórt hlutverk í meistaraflokki. Við sem störfum í kringum yngri leikmenn félagsins þurfum að hlúa betur að þeim og halda þeim við efnið þannig að fleiri haldist í boltanum. Lítið sem ekkert starf er í kringum yngri flokkana og finnst mér oft sem að við þjálfararnir séum að reyna að vinna okkar vinnu án mikillar hjálpar. Krakkarnir í Eyjum þurfa að leggja mikið af mörkum og það kostar mikið þrek að stunda nám samhliða íþróttunum þegar tekið er mið af þeim miklu ferðalögum sem ÍBV þarf að fara í. Það eru einungis einstaka forledrar sem sýna starfinu einhvern áhuga. Félagið í heild þarf því að taka sig saman og sameinast að því að efla barna- og unglingastarfið í Eyjunni fögru.
Með handboltakveðju, Alfreð Örn Finnsson.