Hvernig er að verða orðinn aðalþjálfari hjá meistaraflokknum?
Það er mjög spennandi verkefni að taka við sem aðalþjálfari ÍBV liðsins. Ég hef verið aðstoðarþjálfari í rúmt ár og átt gott samstarf við Erling, svo breytingin er ekki eins mikil og ætla mætti. Gengið var ekki eins og við höfðum vonast til í byrjun og það er verðugt verkefni fyrir okkur að koma okkur í hóp efri liða.
Tímapunkturinn kom á óvart, var þetta lengi í bígerð?
Þetta er eitthvað sem við Erlingur vorum búnir að velta fyrir okkur í nokkrar vikur. Liðið varð fyrir mikilli blóðtöku fyrir þetta tímabil og liðið vantaði reynslubolta inni á vellinum, til að draga vagninn þegar á reynir.
Nú fóru eða hættu 14 leikmenn úr æfingarhópnum frá því í fyrra, það hlýtur að vera erfitt að byrja með svona marga nýja og óreynda leikmenn?
Það er rétt, miklar breytingar hafa orðið á liði okkar og það tekur vissulega tíma að byggja upp nýtt lið. Þetta er vinna sem kemur til með að taka tíma, en vonandi ekki of langan því við meigum ekki tapa of mikið af stigum í byrjun ef við ætlum að vera með í baráttu toppliðanna.
Nú var enn einn að hætta hjá liðinu, Davíð Þór, það hlýtur að vera mikill missir?
Já það er mikill missir fyrir okkur að missa Davíð. Hann hefur leikið mikilvægt hlutverk fyrir okkur í vetur og við komum til með að sakna hans. En það þýðir ekkert að velta sér upp úr því. Við verðum bara að spila eins vel úr þeim mannskap sem við höfum og þjappa okkur enn meira saman
Er það raunhæft að liðið verði með í toppbaráttunni?
Er það raunhæft... Ef allt gengur upp hjá okkur eru ágætir möguleikar á að vera með í baráttu efstu liða. Til þess þurfum við að standa þétt saman og mynda sterka liðsheild úr leikmönnum sem koma úr ýmsum áttum, krefjandi en vel framkvæmanlegt
Úr ýmsum áttum segir þú, þið eruð með einn Bosníumann, einn frá Makedóníu, tvo frá Tékklandi og svo tvo úr Kópavoginum, eru ekki neinir tungumálaörðuleikar á æfingum og í leikjum?
Jú vissulega koma upp aðstæður í leikjum þar sem misskilningur milli leikmanna kostar okkur mörk og lætur okkur líta illa út, en þetta er allt að koma og menn eru að átta sig á hvað hver og einn ætlar sér í það og það skiptið
En hvernig koma þessir nýju menn út? Hvernig gengur þeim að aðlagast Eyjalífinu?
Nýju leikmennirnir eru allir að koma til, ég held að þeir aðlagist lífinu ágætlega hér. Ég held að aðkomumönnum líðið vel hér, það er auðvelt að aðlagast lífinu í Eyjum enda einstakt fólk sem býr hér
Er einhver að koma á óvart?
Mladen Cacic er að koma skemmtilega á óvart í síðustu leikjum. Byrjunin var ekki beint glæsileg hjá honum en hann hefur skorað 10 mörk í síðustu tveim leikjum (20 samanlagt). Leikmaður sem kemur til með að vera drjúgur fyrir okkur í vetur
Nú er deildin mjög jöfn, liðin eru að taka stig af hvoru öðru, verður þetta svona í vetur?
Ég hugsa að þetta verði svona í næstu umferðum, en þegar til lengri tíma er litið koma stöðugustu liðin til með að slíta sig frá hinum og ná ákveðnu forskoti
Næsti leikur er við Fram nk. sunnudag, hvernig leggst sá leikur í ykkur?
Ágætlega, Fram liðið er vel skipulagt lið sem hefur unnið alla leiki sína til þessa. Framarar eru með sterka leikmenn en eru alls ekki ósigrandi og það ætlum við að nýta okkur
Í lokin, hvaða lið verða í átta efstu sætunum?
Haukar, ÍR, Fram, HK, Valur , KA, Stjarnan og ÍBV, en ég þori ekki að spá um endanlega röð.
Eitthvað að lokum?
Áfram ÍBV...