Fótbolti - Keflvíkingar fögnuðu verðskulduðum sigri á ÍBV í dag

22.maí.2005  14:31

- Hafsteinn Gunnarsson skrifar frá Hásteinsvelli
Eftir útreiðina sem bæði lið fengu í fyrstu umferðinna var ljóst að liðin höfðu ýmislegt að sanna í þessum leik. Eyjamenn léku illa gegn Fram og töpuðu 3-0 og var það fyllilega verðskuldað og þurfa að girða sig í brók fyrir framan kröfuharða áhorfendur í eyjum. Krafa eyjamanna er eins og alltaf á heimavelli að liðið vinni og hefur heimavöllurinn oftar en ekki reynst dýrmætur. Keflvíkingar hafa aldeilis verið í sviðsljósinu síðustu vikuna vegna málefna Guðjóns Þórðarsonar en það mál er án efa ekki besti undirbúningurinn fyrir mót. Til að toppa erfiða viku fengu þeir það erfiða verkefni að glíma við FH í fyrstu umferðinni og töpuðu 3-0 en þær lokatölur gáfu ekki alveg raunsanna mynd af gangi leiksins og var sigur FH víst helst til stór.

Leikurinn hófst með látum og Keflvíkingar náðu góðri sókn og fékk Ingvi Rafn Guðmundsson góða sendingu inn fyrir vörn ÍBV og sendi fyrir markið á Hörð Sveinsson sem átti ekki í vandræðum með að skora fram hjá Birki Kristinssyni í markinu. Gott mark hjá Keflavík en vörn ÍBV var illa fjarverandi þarna eins og oft í leiknum. Fram að markinu höfðu Keflvíkingar verið aðgangsharðari en eyjamenn sóttu í sig veðrið eftir markið. En eyjamenn áttu oftar en ekki í vandræðum með föst leikatriði og á 19. mínútu fékk Gestur Gylfason frían skalla eftir góða fyrirgjöf en skallaði rétt framhjá. Á sömu mínútu fékk Atli Jóhannsson boltann inn á vallarhelmingi Keflavíkur og lét bara vaða á markið af löngu færi og boltinn sveif í fallegum boga yfir Ómar Jóhannsson í markinu og small í slánni. Þetta skot Atla hleypti skyndilega lífi í eyjamenn og á 21. mínútu átti Magnús Már góða sendingu inn fyrir vörn Keflavíkur á Steingrím en hann átti misheppnað skot sem náði ekki á markið þrátt fyrir að Ómar Jóhannsson hafi verið komin nokkuð framarlega. Tveimur mínútum seinna komst Andrew Sam í gegnum vörn Keflavíkur og aftur kom Ómar vel út á móti og var nokkrum metrum fyrir utan teig þegar hann varði slakt skot Andrews með fótunum, þarna fóru eyjamenn tvívegis illa með góð færi. Á næstu mínútu dróg aftur til tíðinda en þá átti Atli Jóhannsson góða aukaspyrnu sem sveig yfir alla varnarmenn Keflavíkur og á Steingrím sem lúrði á fjær stönginni og skoraði með góðu skoti. Við þetta jöfnunarmark hrukku Keflvíkingar aftur í gang og fór Guðmundur Steinarsson þarf fremstur í flokki. Á næstu mínútum var eins og hann væri á skotæfingu sem byrjaði með því að hann átti skot yfir markið á 25. mínútu eftir að vörn ÍBV var öll úr lagi gengin. Á 28. mínútu náði Keflavík stórsókn og átti Guðmundur Steinarsson gott skot í stöngina, varnarmenn ÍBV náðu ekki að hreinsa boltann í burtu og hann barst aftur á Guðmund Steinarsson sem skaut í slánna og voru eyjamenn ljónheppnir þarna. Á 33. mínútu dróg aftur til tíðinda en þá átti ÍBV slaka sendingu inn á eigin vallarhelmingi og náði Gestur Gylfason boltanum og sendi hann umsvifalaust inn fyrir vörn ÍBV á Guðmund Steinarsson sem átti skot sem Birkir varði en Guðmundur náði boltanum aftur og skoraði af öryggi. ÍBV átti á þessum kafla fáar sóknir en á 35. mínútu komst Andrew Sam upp að endamörkum og í stað þess að senda fyrir markið reyndi hann að skjóta sem var illskiljanleg ákvörðun hjá honum. Keflvíkingar voru en sterkari aðilinn í þessum leik og á 40. mínútu komst Guðmundur Steinarsson í gegnum vörn ÍBV og reyndi að leika á Birki í markinu en sá gamli sá við honum og varði vel. Atli Jóhannsson lék laglega á varnarmann Keflavíkur á 41. mínútu og komst upp að endamörkum og sendi hættulegan bolta fyrir markið en enginn náði að pota í hann. Keflvíkingar voru ekki hættir og á 44. mínútu átti Guðmundur Steinarsson góðan skalla í stöng hjá ÍBV, Ingvi Rafn Guðmundsson náði boltanum en Birkir varði slakt skot hans. Á sömu mínútu áttu varnarmenn ÍBV en eina þversendingu á eigin vallarhelmingi sem fór beint á leikmenn Keflavíkur og í þetta skiptið fékk Ingvi Rafn boltann á besta stað og hreinlega labbaði í rólegheitum í gegnum vörn ÍBV en í stað þess að skjóta sjálfur reyndi hann að senda til hliðar á Guðmund Steinarsson og kom þá Bjarni Geir Viðarson til sögunnar og bjargaði vel. Keflavík var mun betra liðið í fyrri hálfleik og átti ÍBV í mesta basli með Guðmund Steinarsson sem hefði hæglega verið búinn að skora 4-5 mörk í hálfleiknum en staðan í leikhléi 2-1 fyrir Keflavík.

Seinni hálfleikur hófst með látum og átti Brian O´Callaghan góðan skalla á 47. mínúta sem hafnaði í stöng. Á 49. mínútu fær Ingvi Rafn Guðmundsson boltann inn í teig ÍBV og fær að komast óáreittur í gott færi sem hann nýtir vel og skorar með góðu skoti fram hjá Birki í markinu. Á 54. mínútu gerðist ljótur atburður en þá braut Páll Hjarðar gróflega á Ingva Guðmundssyni sem var í kjölfarið borin út af og beint í sjúkrabíl og töldu menn líklegt að hann hefði fótbrotnað. Páll fékk gult spjald fyrir brotið en með réttu hefði átt að vísa honum af velli fyrir þetta brot. Eftir þetta dofnaði heldur yfir leiknum og fátt markvert gerðist næstu mínútur utan það Keflvíkingar náðu öðru hvoru skoti á mark ÍBV en flest þessi skot voru slökt og átti Birkir ekki í vandræðum með þau. Besta færi Keflvíkinga fékk þó Hörður Sveinsson á 77. mínútu en þá átti hann skalla eftir góða fyrirgjöf frá Jónasi Sævarssyni en Birkir varði vel. Fyrsta lífsmark ÍBV í langan tíma var á 83. mínútu en þá fékk Matthew Platt boltann eftir hornspyrnu en skot hans fór í varnarmenn Keflavíkur og kjölfarið fékk Atli Jóhannsson boltan og kom með fyrirgjöf sem ekkert kom úr. Mótlætið fór greinilega í leikmenn ÍBV því á 88. mínútu fékk Lewis Dodd að líta rauða spjaldið eftir að hann hafði verið allt of seinn í tæklingu á Hólmari Erni Rúnarssyni en það verður að segjast að miðað við tæklingu Páls á Ingva fyrr í leiknum þá var þessi nú ekki mjög gróf og hefði að mínu mati verðskuldað gult spjald fremur en rautt, en annars góður dómari leiksins var á öðru máli. Hörður Sveinsson komst næstum í gegnum vörn ÍBV en vann illa úr færinu sem rann út í sandinn. ÍBV fékk hornspyrnu á 93. mínútu og úr henni náðu Andri Ólafsson að skora gott mark með skalla, mjög vel gert hjá Andra en fyrir ÍBV var þetta væntanlega to late to little. Skömmu seinna flautaði Kristinn Jakobsson til leiksloka og Keflvíkingar fögnuðu verðskulduðum sigri. Það er ljóst af þessum leik að ÍBV verður að laga margt í sínum leik. Varnarleikurinn var vandræðalegur allan tímann og einnig var mikið um að leikmenn sendu slæmar þversendingar inn á eigin vallarhelmingi til andstæðingana sem áttu þá auðvelt með að komast í færi. Hjá ÍBV var það helst Atli Jóhannsson sem var með smá lífsmarki en hann eins og aðrir leikmenn eiga vonandi mikið inni fyrir næsta leik. Lið Keflavíkur spilaði vel í þessum leik og unnu sanngjarnan og öruggan sigur, vörn liðsins gaf ekki mörg færi á sér og sóknarmenn liðsins voru duglegir við að koma sér í færi en voru einstaklega óheppnir með skot sín. Það var ekki að sjá að leikmenn Keflavíkur væru eitthvað ófaglegir í sínum aðgerðum á vellinum og með svona leik eiga þeir væntanlega eftir að ná í nokkur stig í sumar. Besti leikmaður Keflavíkur og jafnfram besti maður vallarins var Guðmundur Steinarsson og áttu varnarmenn ÍBV í mesta basli með hann, einnig var Ingvi Rafn Guðmundsson sprækur meðan hans naut við og vörn liðsins var nokkuð traust.

Landsbankadeildin:

Hásteinsvöllur sunnudaginn 22. maí 2005 kl. 14:00.

Lið: ÍBV-Keflavík

Lokatölur : 2-3

Hálfleikstölur: 1-2

Aðstæður: Völlurinn í góðu standi

Veður: Sólríkt og ágætlega hlýtt en smá vestan gjóla

Áhorfendur: 250-300

Skemmtanagildi á skalanum 1-10: 7

Maður leiksins: Guðmundur Steinarsson

Frammistaða dómara á skalanum 1-10: 8 (Kristinn Jakobsson)

ÍBV

Byrjunarlið

1. Birkir Kristinsson (F)(M)

2. Páll Þorvaldur Hjarðar

5. Einar Hlöðver Sigurðsson

6. Andri Ólafsson

7. Atli Jóhannsson

8. Ian David Jeffs

10. Magnús Már Lúðvíksson

11. Steingrímur Jóhannesson

14. Bjarni Geir Viðarsson

18. Andrew Sam

20. Bjarni Hólm Aðalsteinsson

Varamenn

3. Lewis Dodd

9. Pétur Runólfsson

12. Hrafn Davíðsson ( M )

15. Matthew Platt

16. Bjarni Rúnar Einarsson

Mörk

23. mín. Steingrímur Jóhannesson ( 1-1 )

93. mín. Andri Ólafsson ( 2-3 )

Skiptingar

29. mín. Lewis Dodd fyrir Bjarna Hólm Aðalsteinsson

54. mín. Matthew Platt fyrir Magnús Má Lúðvíksson

80. mín. Pétur Runólfsson fyrir Einar Hlöðver Sigurðsson

Spjöld

21. mín Einar Hlöðver Sigurðsson, gult

53. mín. Páll Hjarðar, gult

88. mín Lewis Dodd, rautt

Hornspyrnur : 4

Keflavík

Byrjunarlið

1. Ómar Jóhannsson (M)

3. Guðjón Árni Antoníusson

4. Gestur Gylfason

7. Hólmar Örn Rúnarsson

8. Ingvi Rafn Guðmundsson

9. Guðmundur Steinarsson

10. Hörður Sveinsson

13. Jónas Guðni Sævarsson

15. Michael Johansson

16. Brian O´Callaghan

23. Branislav Milicevic

Varamenn

12. Magnús Þormar (M)

6. Atli Rúnar Hólmbergsson

11. Baldur Sigurðsson

13. Gunnar Hilmar Kristinsson

17. Ásgrímur Albertsson

Mörk

5. mín. Hörður Sveinsson (0-1)

33. mín Guðmundur Steinarson (1-2)

49. mín Ingvi Rafn Guðmundsson (1-3)

Skiptingar

55. mín. Baldur Sigurðsson fyrir Ingva Rafn Guðmundsson

80. mín. Ásgrímur Albertsson fyrir Guðmund Steinarsson

90. mín. Atli Rúnar Hólmbergsson fyrir Hörð Sveinsson

Spjöld

93. mín. Ásgrímur Albertsson, gult

Hornspyrnur : 6