Kl. 17 í dag hefst Landsbankadeild karla með 3 leikjum. Að Hlíðarenda leika Valsmenn gegn Grindvíkingum, á Skaganum leika heimamenn gegn Þrótti. Okkar strákar í ÍBV leika gegn Fram á Laugardalsvelli.
Nokkuð er um meiðsl í herbúðum ÍBV auk þess sem Páll Hjarðar er í leikbanni. Hinsvegar mun Guðlaugur þjálfari tefla fram öflugu liði sem er til alls líklegt. Miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópi ÍBV og liðið, eins og stundum áður, algerlega óskrifað blað í upphafi móts, en þó hafa fótboltaspekingar landsins spáð ÍBV, silfurliði síðasta árs, falli úr efstu deild. Telja þeir ÍBV ekki sama liðið eftir að hafa misst Gunnar Heiðar, Bjarnólf og Tryggva Bjarnason frá félaginu auk þess sem Einar Þór Daníelsson er ekki meðal leikmanna ÍBV lengur. Lái þeim hver sem vill en auðvitað ætlum við okkur Eyjamenn að hrekja þessar hrakspár sem fyrr og 3 stig í Laugardalnum væru kærkomin til að gefa þeim langt nef. Til félagsins hafa komið nokkrir nýjir leikmenn, s.s. Matthew Platt(Crewe), Andrew Sam(London), Bjarni Hólm Aðalsteinsson, James Robinson(Crewe) og Lewis Dodds (Sunderland). Auk þessa má segja að Steingrímur Jóhannesson hafi bæst í hópinn en hann náði sér ekki á strik s.l. sumar eftir erfið meiðsli, en í vorleikjum hefur hann sýnt sínar gömlu hliðar og virðist ekki hafa neinu gleymt.
Stuðningsmenn er hvattir til að fjölmenna í Laugardalinn. Strákarnir eru klárir í bátana og nú er að veita þeim þann stuðning sem hverju liði er nauðsynlegur í Landsbankadeildinni.
Dómari leiksins í dag er Garðar Örn Hinriksson.
Áfram ÍBV