Nú á sunnudaginn hefur göngu sína nýr þáttur um íslenska boltann á X-FM 2,9. Þátturinn Fótbolti.net mun helga sig íslensku knattspyrnunni í sumar og verður íslenski boltinn eins og hann leggur sig tekinn fyrir.
Þátturinn verður á dagskrá í sumar frá 12-14 á sunnudögum að öllum líkindum og í þættinum verður hitað upp fyrir leiki, farið yfir úrslit, viðtöl tekinn við leikmenn og þjálfara. Farið verður yfir Landsbankadeild karla, 1.deild, 2.deild og 3.deild karla. Einnig verður rennt yfir kvennaknattspyrnuna og reynt að gera henni góð skil.
Hingað til í undanförnum þáttum höfum við verið með upphitanir fyrir Landsbankadeild karla, 1.deild karla og 2.deild karla en þar hefur verið rennt yfir liðin og þau metin fyrir sumarið. Klárað verður að hita upp fyrir sumarið um helgina og púlsinn tekinn á því helsta fyrir mánudaginn en þá hefjast þrjár efstu deildirnar. Þáttur sem þessi hefur ekki verið gerður áður þar sem íslensk knattspyrna eins og hún leggur sig hefur verið tekinn fyrir og því þiggjum við allar hugmyndir að efni og ýmislegu tengdu boltanum hér heima.
Við vonumst til að hlustendur taki virkan þátt og ræði málefni síns liðs og þeirra deilda sem þau eru í. Þar sem þátturinn næst eingöngu hér á Suðvesturhorninu þá er liðum út á landi bent á að hægt er að hlusta á þáttinn á netinu á
www.xfm.fotbolti.net og
www.xfm.is. Einnig verður tengill á
www.fotbolti.net þegar þátturinn er í gangi. Það ætti því ekkert að vera til fyrirstöðu fyrir fólk út á landi að hlusta á þáttinn á sunnudögum frá 12-14.
Hugmyndin að þessum þætti er í raun beint framhald að góðri umfjöllun Fótbolti.net um neðri deildirnar hér heima sem hefur mælst vel fyrir og við vonum svo sannarlega að áhugamenn um íslenska knattspyrnu stilli inn á X-FM 2,9 alla sunnudaga frá 12-14.
Boltakveðjur,
Gunnar, Elvar og Hjalti