Handbolti - Yfirlýsing frá handknattleiksdeild ÍBV

12.maí.2005  01:44

Óskum honum velfarnaðar.
Vegna fréttaflutnings um samningsviðræður Tite Kalandadze við ÍBV og yfirlýsingar Sigurðar Bjarnasonar fulltrúa Stjörnumanna í fjölmiðlum þá teljum við nauðsynlegt að upplýsa eftirfarandi:

Við áttum í viðræðum við framangreindan leikmann, vorum búnir að gera honum gott tilboð og töldum okkur vera komna langt með að klára samning. Að sjálfsögðu höfðu fleiri lið áhuga á jafn sterkum leikmanni, vildum við keppa að jafnréttisgrundvelli í þeirri baráttu enda vorum við búnir að leggja mikla vinnu í að fá Tite til landsins og hann hafði staðið sig frábærlega í leikjum með ÍBV og lífgaði sannarlega uppá handboltann í landinu.

Í gær komu fulltrúar Stjörnunnar til Eyja og gerðu Tite tilboð. Vildi hann hitta okkar og ræða tilboð sem hann hafði fengið frá Stjörnunni og upplýsa okkur um stöðu mála enda höfðum við verið í samningsviðræðum við hann. Upplýsti hann okkur um það að hann hefði tilboð sem fjárhagslega er hærra en við höfum nokkurn tímann heyrt um hérlendis og nafngreindi sterkan einstakling í Garðabæ sem myndi tryggja greiðslur. Hann lét þess jafnframt getið að þessir peningar þekktust ekki einu sinni í Kvatar. Er hér var komið til sögu voru þær tölur sem nefndar voru deildinni og aðstandendum hennar algjörlega ofviða og sama hvað við reyndum kom hærra tilboð frá Stjörnunni og að lokum var tilboð Stjörnunnar til hans okkur gjörsamlega ofviða. Að auki var honum tryggður íslenskur ríkisborgararéttur ef hann kæmi í Stjörnuna og sagði hann að sér hefði verið tjáð af þessum aðilum að það yrði mjög erfitt að fá íslenskan ríkisborgararétt væri hann um kyrrt í Eyjum og nefndi hann einstaklinga sem myndu tryggja honum ríkisborgararéttinn ef hann kæmi í Stjörnuna. Það verður gaman að sjá hvort að Stjarnan sé búin að redda Tite íslenskan ríkisborgararétt á komandi þingi?

Við vorum vonsvikin að missa þennan frábæra leikmann og sérstaklega vorum við ósátt með þær upplýsingar sem hann kynnti okkur um vinnu valdamanna á bakvið tjöldin. Við viljum keppa á jafnréttisgrundvelli hvort sem er innan vallar sem utan. Við ætlum ekki að tjá okkur um dylgjur og rógburð Sigurðar Bjarnasonar í okkar garð. Tite Kalandadze kom hreint fram gagnvart okkur og þökkum við honum fyrir hans framlag í frábærum árangri ÍBV liðsins í vetur og óskum honum góðs gengis. Við vonum og trúum því jafnframt að honum hafi liðið vel í Eyjum og hann sagði að lokum við okkur í dag að hann yrði að hugsa um fjárhagslega hagsmuni sína og sinnar fjölskyldu og það væri það sem réði hans ákvörðun fyrst og fremst.

Niðurstaðan er sú að handknattleiksdeildin og stuðningsmenn handboltans höfðu ekki það fjármagn sem Stjarnan hefur. Til að gefa fólki hugmynd um þann kostnað sem þessir tveir leikmenn hefðu haft í för með sér fyrir deildina þá hefðu þeir tveir kostað töluvert meir en allur launakostnaður mfl. karla á því tímabili sem nú er að enda.