Handbolti - Klaufalegt í lokin

03.maí.2005  23:43

- Haukar höfðu betur í framlengingu

Í kvöld mættust lið ÍBV og Hauka í öðrum leik liðanna um Íslandsmeistaratitil karla í handknattleik. Haukar höfðu betur í miklum spennuleik í fyrsta leik liðanna og því var búist við skemmtilegum leik í kvöld. Sú varð raunin en eftir framlengdan leik þá voru það Haukar sem höfðu betur og geta því tryggt sér titilinn í Hafnarfirði á fimmtudag.

Lið ÍBV byrjaði betur og hafði yfirhöndina nær allan fyrri hálfleik. Sóknarleikurinn gekk vel og náðu strákarnir mest fjögurra marka forystu 10-6. Munurinn var svo á bilinu 1-4 mörk út hálfleikinn en staðan í hálfleik var 15-12 strákunum okkar í vil. Seinni hálfleikurinn þróaðist svo á svipaðan hátt. ÍBV liðið var alltaf með yfirhöndina og náðu m.a. 5 marka forskoti. Vörn okkar manna var þó alls ekki nógu öflug en forskotið hélst þó þar til undir blálokin. Haukar náðu að minnka muninn í 1 mark 31-30 þegar skammt var eftir og fengu svo sókn þegar 30 sekúndur lifðu leiks. Þeir nýttu sér hana, settu Jón Karl Björnsson inná sem aukamann og hann fór inn úr horninu þegar 12 sekúndur voru eftir og sneri boltann framhjá Roland og í netið. Á sjónvarpsupptökum virtist Jón Karl reyndar vera lentur en annars ágætir dómarar leiksins dæmdu mark og því þurfti að grípa til framlengingar.

Í framlengingunni voru Haukar svo alltaf sterkari. Þeir tóku strax forystu og héldu henni til loka, lokatölur voru 39-35 í þessum baráttuleik, sárgrætilegt tap þar sem sigur ÍBV virtist blasa við undir lokin. En nú þýðir ekkert annað en að hysja upp um sig buxurnar, mæta tvíefldir í næsta leik og berjast til síðasta manns á Ásvöllum á fimmtudaginn kemur. Stuðningur áhorfenda er mikilvægur og hvet ég alla Eyjamenn til að fjölmenna á Ásvelli á fimmtudaginn kl 19:40 og sýna strákunum að við stöndum við bakið á þeim.

Mörk ÍBV : Tite 9, Svavar 6, Samúel 5/2, Robert 5, Beló 4/2, Sigurður Ari 3, Kári 1 og Siggi Braga 1. Roland varði 21/1 skot í markinu og Jói varði 1 skot.