- Haukar Íslandsmeistarar 2005
Í kvöld mættust ÍBV stelpurnar okkar og Haukastelpur í þriðja leik liðanna um Íslandsmeistaratitil kvenna í handknattleik. Haukar höfðu farið með sigur af hólmi í fyrstu tveimur viðureignunum og því ljóst að með sigri yrðu þær Íslandsmeistarar. Sú varð raunin og silfrið því staðreynd hjá okkar stelpum þetta árið.
ÍBV byrjaði leikinn mjög vel. Þær náðu strax forystunni og voru yfir til að byrja með í leiknum. Sóknarleikurinn gekk vel og varnarleikurinn var ágætur. Liðið náði mest þriggja marka forystu 10-7 og liðið á réttri braut. En þá komu hver mistökin á fætur öðrum í sókninni, Haukar gengu á lagið og skoruðu úr hraðaupphlaupum og skyndilega voru þær komnar með þriggja marka forystu sem þær héldu til loka hálfleiksins og staðan í hálfleik var 15-12.
Seinni hálfleikur var í járnum. Haukar héldu forystunni og náðu mest 5 marka forystu 20-15. ÍBV stelpurnar reyndu hvað þær gátu til að minnka muninn og fengu svo sannarlega færin til þess. Kristina í marki Hauka varði hvað eftir annað vel og á meðan dauðafærin nýtast okkur ekki þá verður erfitt að vinna Haukana. Stelpurnar okkar náðu þó að minnka muninn í eitt mark þegar skammt var eftir af leiknum en lengra komust þær ekki, Haukar kláruðu leikinn með stæl og lokatölur leiksins voru 26-23 Hafnarfjarðarstúlkum í vil sem þar með eru Íslandsmeistarar árið 2005.
Leikirnir í þessari seríu þróuðust allir á svipaðan hátt. Haukar höfðu oftast yfirhöndina og slæm nýting á dauðafærum auk tæknifeila í sókninni felldu okkar að þessu sinni. Haukar eru verðugir meistarar en það er sárt að fara í gegnum þessa leiki án þess að ná að fagna sigri einu sinni. Munurinn á milli liðanna er ekki svo mikill og því ennþá sárara að tapa 3-0. En við óskum Haukum til hamingju með titilinn og okkar stelpum til hamingju með silfrið sem vissulega er góður árangur.
Mörk ÍBV : Alla 9, Anastasia 5, Guðbjörg 3, Tatjana 3, Eva Björk 2 og Darinka 1. Flora varði um 20 bolta í markinu og stóð fyrir sínu.