Handbolti - ÍBV-Haukar : 0-2

27.apr.2005  01:06
- Haukar komnir í þægilega stöðu í einvíginu
 
Í kvöld mættust lið Hauka og ÍBV öðru sinni í einvíginu um Íslandsmeistaratitil kvenna í handknattleik. Haukar höfðu betur í fyrsta leiknum á sínum heimavelli og því ljóst að þær kæmust í þægilega stöðu með sigri í kvöld. Svo fór að Hafnfirðingar fóru með sigur af hólmi og eru komnir í 2-0 í einvíginu og geta því tryggt sér titilinn næstkomandi fimmtudag þegar liðin mætast í Hafnarfirði.
 
Haukar byrjuðu leikinn betur og komust í 3-1. Eyjastelpur voru ekki alveg tilbúnar og vörnin var ekki í lagi. Haukar komust í 7-4 en ÍBV minnkaði muninn jafn harðan og náði að jafna metin í 8-8 með frábæru marki Guðbjargar úr hraðaupphlaupi. Munurinn var svo 1-2 mörk til loka hálfleiksins og staðan í hálfleik var 13-14 Haukum í vil og því ljóst að spennandi seinni hálfleikur var framundan.
 
Sú varð líka svo sannarlega raunin. Okkar stelpur skoruðu fyrstu tvö mörk hálfleiksins og komust yfir í fyrsta skipti 15-14. En Haukastelpur jöfnuðu metin fljótlega og í stöðunni 16-16 skoruðu þær þrjú mörk í röð, eftir að stelpurnar okkar höfðu farið illa með sóknir sínar, og staðan var skyndilega orðin 19-16. En ÍBV svaraði að bragði með þremur mörkum og staðan 19-19 þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Leikurinn var svo í járnum og í stöðunni 23-23 voru menn farnir að búa sig undir framlengingu en þá tóku Haukar sig til og skoruðu tvö mörk í röð og staðan skyndilega orðin 25-23 og einungis hálf mínúta eftir af leiknum. Alla skoraði svo mark þegar 15 sekúndur voru eftir af leiknum og minnkaði muninn í eitt mark en tíminn var of naumur og þó Alla næði boltanum og skoti á markið frá miðju þá gall flautan áður en boltinn komst inn fyrir línuna og því Haukasigur staðreynd.
 
Í þessum leik eru misnotuð dauðafæri ástæðan fyrir því að okkar stelpur fóru ekki með sigur af hólmi. Alltof mörg tækifæri fóru forgörðum og það dugir ekki gegn eins sterku liði og Haukar eru. Einnig litu nokkrir skrýtnir dómar dagsins ljós undir lokin og síðustu 10 mínútur leiksins féllu mörg vafaatriði Haukamegin og höfðu annars ágætir dómarar leiksins enga stjórn á leiknum þessar lokamínútur. T.d. er Ramune Haukastelpa búin að biðjast afsökunar þegar hún slær í skothendi Darinku í dauðafæri en dómararnir ákváðu að dæma ekkert þegar víti og tvær mínútur hefðu verið nærri lagi.
 
Margir dómar voru skrítnir undir lok leiks. En það þýðir víst lítið að velta sér upp úr þessum atriðum, þau eru hluti af leiknum en svekkjandi engu að síður. Nú er ekkert annað í stöðunni en að hysja upp um sig buxurnar og mæta á Ásvelli á fimmtudag og gefa allt sem við eigum.
 
Í liði Eyjastelpna stóð Flora markmaður uppúr en hún átti enn einn stórleikinn og ég fullyrði það að hún er ein af bestu markvörðum sem leikið hafa í kvennahandbolta hér á landi frá upphafi.
 
Mörk ÍBV : Alla 9, Anastasia 6, Tatjana 4, Darinka 2, Guðbjörg 2 og Eva Björk 1. Flora varði 24/2 skot í markinu.