Handbolti - Stórkostlegur sigur

24.apr.2005  19:08
- ÍR-ingar áttu ekkert svar við leik ÍBV sem eru komnir í úrslit í fyrsta sinn
 
Í dag mættust ÍBV og ÍR í oddaleik undanúrslita Íslandsmóts karla í handknattleik. Fyrirfram var búist við spennandi leik því fyrri tveir leikir liðanna höfðu verið baráttuleikir. En það varð þó ekki raunin. ÍBV sigraði örugglega og er því komið í úrslit Íslandsmótsins í fyrsta sinn en þar mæta þeir Haukum sem eiga titil að verja.
 
ÍBV byrjaði leikinn mun betur og ÍR átti fá svör við sterkum varnarleik Eyjamanna. Sóknin gekk líka vel og greinilegt að strákarnir okkar hafa fundið svör við varnarleik ÍR sem var sterkur í leiknum á undan. Eyjamenn náðu strax forskoti sem þeir létu ekki af hendi enda að spila mjög vel í fyrri hálfleik, sterk vörn og fjölbreyttur sóknarleikur auk þess sem Roland var traustur í markinu. Í hálfleik var staðan 20-13 og ljóst að ÍR-ingar þyrftu að laga sinn leik allverulega ef þeir ætluðu að eiga möguleika.
 
Í seinni hálfleik var svipað uppi á teningunum. ÍBV skoraði og skoraði og þó ÍR hafi átt greiðari leið að marki okkar stráka í seinni hálfleik náðu þeir aldrei að komast nálægt þeim. Mestur varð munurinn tíu mörk, 35-25, og síðustu mínúturnar leystist leikurinn upp þar sem ÍR lék maður á mann vörn. Lokatölur urðu 40-33 og ÍBV því komið í úrslit Íslandsmótsins þar sem þeir mæta Íslandsmeisturum Hauka.
 
Þegar ÍBV liðið er í slíkum ham eins og í dag þá ráða fá lið við þá. Vörnin var frábær í fyrri hálfleik og sóknarleikurinn mjög góður allan tímann. Sóknarnýtingin var auk þess mjög góð og markvarslan í góðu lagi. Þá má ekki gleyma áhorfendum sem voru stórkostlegir í dag en við viljum minna á að þeirra þætti er hvergi nærri lokið, nú eigum við tvö lið í úrslitum og bæði þurfa þau á stuðningi að halda. Hjá ÍR var fátt um fína drætti en þó verður að minnast á frammistöðu Bjarna Fritzsonar í síðari hálfleik en þá sýndi hann mörg frábær tilþrif og það er engin tilviljun að hann er kominn með atvinnumannasamning.
 
Fyrsti leikur ÍBV og Hauka er laugardaginn 30.apríl en í millitíðinni leika stelpurnar tvo leiki við Haukastelpur, á þriðjudaginn í Vestmannaeyjum og á fimmtudag í Hafnarfirði. ÁFRAM ÍBV !!!
 
Mörk ÍBV : Tite 9, Samúel 8, Sigurður Ari 6, Robert 5, Svavar 4, Beló 4, Siggi Braga 1, Davíð Þór 1, Kári 1 og Björgvin 1. Roland varði 18 skot þann tíma sem hann stóð í markinu og Jói varði 2 skot.