Handbolti - Haukar-ÍBV : 1-0

24.apr.2005  02:05
- Næsti leikur í Eyjum á þriðjudag
 
Í dag fór fram fyrsti leikur ÍBV og Hauka í einvíginu um Íslandsmeistaratitil kvenna í handknattleik. Liðin höfnuðu í tveimur efstu sætum deildarkeppninar í vetur og því ljóst að þarna eru að mætast tvö bestu lið landsins.
 
Leikurinn fór frekar rólega af stað og var lítið skorað fyrstu mínúturnar. Liðin virkuðu frekar óörugg í sókninni en vel var tekið á því í vörninni auk þess sem markmenn liðanna voru í stuði. ÍBV skoraði fyrsta mark leiksins en Haukar svöruðu með næstu þremur. Haukar komust svo fljótlega í 6-2 og 10-5 en þá kom góður kafli hjá ÍBV sem minnkaði muninn í 10-8 og fengu færi til að minnka muninn í eitt mark sem þær náðu ekki að nýta sér. Í hálfleik var staðan 12-9, þriggja marka munur Hafnarfjarðarliðinu í vil og því ljóst að okkar stelpur þyrftu að bretta upp ermar til að komast inn í leikinn.
 
Síðari hálfleikur þróaðist á svipaðan hátt og sá fyrri. Haukar höfðu forystuna og Eyjastelpur reyndu að minnka muninn. Þær náðu mest að minnka muninn í eitt mark, 15-14, en þá skoruðu Haukar tvö næstu mörk og komust í 17-14. ÍBV minnkaði svo muninn í eitt mark í stöðunni 19-18 og fengu færi til að jafna metin en það tókst ekki, Haukar gengu á lagið og tryggðu sér nokkuð þægilegan þriggja marka sigur 22-19 og hafa því náð forystunni í einvíginu eftir þennan fyrsta leik en þrjá sigurleiki þarf til að hampa titlinum.
 
Leikur ÍBV liðsins í dag var ekki nógu beittur til að ná sigri gegn Haukum. Vörnin og markvarslan var í lagi, enda ekkert slæmt að fá á sig 22 mörk gegn Haukum, en sóknarleikurinn brást. Ákveðni vantaði til að klára hlutina og t.d. fékk ÍBV fá eða engin mörk úr hraðaupphlaupum í dag þar sem áræðnina vantaði til að keyra upp völlinn. Of fáir leikmenn skiluðu sínu sóknarlega og það þarf að laga fyrir næsta leik.
 
En við vitum öll að getan er fyrir hendi og ef stelpurnar trúa á sjálfa sig þá geta þær allt. Áhorfendur verða að styðja áfram við bakið á stelpunum eins og þeir hafa gert í vetur og saman tökum við vel á móti Haukum á þriðjudag löndum sigri. ÁFRAM ÍBV !!!
 
Mörk ÍBV : Alla 7, Anastasia 5, Eva Björk 5, Tatjana 1 og Darinka 1. Flora varði vel í markinu og tók 17 skot.