Handbolti - Úrslitaeinvígið gegn Haukum að hefjast

22.apr.2005  22:36
Fyrsti leikurinn að Ásvöllum á laugardag kl 16:15
 
Á morgun laugardag hefst úrslitaeinvígi ÍBV og Hauka um Íslandsmeistaratitil kvenna í handknattleik. Liðin hafa verið þau sterkustu í vetur og verður einvígið án efa spennandi og skemmtilegt. Haukar hafa heimaleikjaréttinn og því ljóst að ÍBV þarf að vinna einn útileik til að eiga möguleika á titlinum. Fyrsti leikurinn er lykilleikur einvígisins og því mikilvægt að Eyjamenn fjölmenni á Ásvelli á morgun og styðji stelpurnar til sigurs.
 
Liðin hafa mæst fjórum sinnum í vetur og standa liðin jafnt að vígi hvað sigra varðar, þó leikirnir sjálfir hafi verið ójafnir. Fyrsti leikur liðanna var 7.nóvember að Ásvöllum. Þar unnu Haukar öruggan sigur 35-25 eftir að hafa verið yfir í hálfleik 17-11. Næstu tveir leikir liðanna fóru svo fram í Vestmannaeyjum. Fyrri leikurinn var í bikarnum þann 3.desember og unnu ÍBV stelpurnar þar öruggan sigur 33-25 eftir að hafa verið 14-12 yfir í hálfleik. Seinni leikur liðanna í Eyjum var þann 28.janúar. ÍBV hafði sigur í þeim leik 30-27 eftir að hafa haft örugga forystu allan leikinn. Fjórði leikur liðanna í vetur var svo að Ásvöllum þann 19.mars en Haukar unnu þar öruggan 14 marka sigur 35-21.
 
Staðan í leikjum talið er því 2-2 en þegar í úrslitin er komið þá skipta fyrri leikirnir engu máli. Það lið sem hungrar meira í titil og mætir tilbúið til leiks mun fara með sigur af hólmi. Áhorfendur geta verið 8.maður liðanna í þessu einvígi og því er mikilvægt að Eyjamenn fjölmenni og styðji stelpurnar, sama hvort það er í Eyjum eða Hafnarfirði.
 
Eins og áður segir er fyrsti leikur liðanna á morgun laugardag og hefst klukkan 16:15 að Ásvöllum í Hafnarfirði. ÁFRAM ÍBV !!