Handbolti - Leikur sem fer á spjöld sögunnar

19.apr.2005  09:46
Stærsti leikur í sögu karlahandboltans sem leikinn hefur verið í Eyjum
Í kvöld leika strákarnir okkar gegn ÍR í undanúrslitum DHL deildarinnar.  Er hér um að ræða stærsta leik sem fram hefur farið í Eyjum í karlahandboltanum.  Það er spurning hvort að þú Eyjamaður góður ætlar að missa af þessari stóru stund?
 
ÍR-ingar ætla að fjölmenna á þennan leik og eru væntanlegar allavega 1 Fokker með þeirra stuðningsmenn og vel getur farið að þær verði 2 Fokkerar sem lenda í Eyjum þar sem gríðarleg stemming er í herbúðum ÍR fyrir þessum leik.  Það er spurning hvort við ætlum að láta þá þagga niður í okkur á pöllunum eða að mæta og styðja við bakið á okkar drengjum.
 
Allavega ætlar hann Roland að vera vel tilbúinn í þennan leik og leggja sig allan fram til að sigur vinnist sem og allir drengirnir okkar.  Það er þeirra von að þú, Eyjamaður, góður gerir það einnig og þú mætir og styðjir drengina til sigurs.
 
Hér birtum við viðtal við Roland er birtist í vikublaðinu Fréttum ekki alls fyrir löngu:
 
Það sýnir best metnaðinn hjá ÍBV í handboltanum að það dugði ekki minna en sjálfur aðalmarkmaður íslenska landsliðsins þegar kom að því að finna mann til að standa á milli stanganna hjá körlunum á yfirstandandi tímabili. Sá heitir Roland Eradze og kemur frá Tíblísi í Georgíu.
 
Roland er 33 ára en hann byrjaði 14 ára að stunda handbolta. Hann á sér athyglisverðan feril sem tengist stöðunni í alþjóðamálum og falli múrsins sem var afkvæmi kalda stríðsins. Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að hann hefur leikið með þremur landsliðum. Hann náði strax árangri í handboltanum og 16 ára var hann byrjaður að verja markið í 1. deildinni sovésku en Georgía tilheyrði Sovétríkjunum fram til 1990. „Ég spilaði með Burevestnik og var í sovéska ungmennalandsliðinu frá 16 ára aldri og upp í 18 ára. Þetta var góður tími og við ferðuðumst mikið því Sovétríkin náðu yfir mörg lönd. Eftir 1991 tefldi Georgía fram eign landsliði sem var mjög sterkt en auk þess að spila með því hef ég leikið með félögum í Grikklandi, Júgóslavíu, Makedóníu og til Íslands kom ég árið 2000,“ segir Roland.
 
Hér á landi byrjaði hann hjá Val. „Valur hafði náð góðum árangri í Evrópukeppni og ég las jákvæðar umsagnir um félagið á Netinu. Umboðsmaður minn sagði líka að Valur væri gott félag og með góðan þjálfara þannig að ég ákvað að slá til. Geir Sveinsson, þjálfari, átti eftir að reynast mér vel og mér líkaði vel við strákana í liðinu. Ég var hjá Val í þrjú ár en lenti í erfiðum meiðslum á þriðja árinu.“
 
Frábær frammistaða  Rolands í marki Vals vakti athygli HSÍ. Þegar Geir spurði hann að því hvort hann væri til í að fá íslenskan ríkisborgararétt og verða þannig gjaldgengur með landsliðinu ákvað hann að slá til. „Mér fannst spennandi að fá tækifæri til að spila með landsliðinu og leikmönnum eins og t.d. Ólafi Stefánssyni. Mér hefur líkað vel að vera  í þessum hóp og toppurinn var að komast á Olympíuleikana. Það er draumur allra íþróttamanna að komast þangað en auðvitað hefði árangur okkar mátt vera betri.“
 
Roland er ánægður með dvölina í Vestmannaeyjum. „Þegar mér stóð til boða að fara til Vestmannaeyja sögðu allir mér að hér væri gott að vera. Ég hef ekki orðið fyrir vonbrigðum, ÍBV er gott félag, þetta eru fínir strákar og við höldum saman eins og ein fjölskylda. Það er eitthvað sem mér líkar og það hjálpar líka að bæði kona og dóttir eru ánægðar,“ segir Roland.
 
Hann segir að liðið hafi tekið góðum framförum í vetur og er nokkuð ánægður með stöðuna. „Leikur okkar er orðinn mun betri,  skipulagðari og aginn orðinn meiri sem er lykilatriði. Öll umgjörðin er líka til fyrirmyndar, þjálfarinn góður og mister Hlynur er mjög duglegur eins og annað fólk sem starfar við handboltann í Vestmannaeyjum. Við erum líka að fá fleira fólk á leiki sem er alltaf jákvætt fyrir okkur sem erum úti á vellinum.“
 
Fyrsti leikurinn í átta liða úrslitunum gegn Fram átti að vera hér í Eyjum í gærkvöldi. „Við munum reyna okkar besta,“ sagði Roland þegar hann var spurður um möguleika ÍBV í úrslitakeppninni. „Að öðru leyti er erfitt að segja til um hvað við komum til með að ná langt. Það jákvæða er að við erum að ná betur saman og nýtum þann styrk sem býr í leikmönnum og liðinu í heild. Þetta hefur tekist í síðustu leikjum og haldi það áfram eigum við möguleika á að komast langt í úrslitunum.“
 
Hvað með framhaldið hjá ÍBV? „Það veit ég ekki en ef það er vilji hjá mister Hlyn að hafa mig  áfram er ég til. ÍBV er með sterkt lið í dag og það væri gaman að halda utan um það áfram. Til að ná toppárangri í handbolta þarf lið að halda sömu leikmönnunum í tvö til þrjú ár. Takist það hjá ÍBV gæti framtíðin verið björt,“ sagði Roland að lokum.
 
Tekið úr vikublaðinu Fréttum.