Handbolti - Stelpurnar okkar komnar í úrslit Íslandsmótsins

17.apr.2005  23:56
Unnu öruggan sigur á Stjörnunni
 
Í dag áttust við ÍBV og Stjarnan í oddaleik Íslandsmóts kvenna í handknattleik. Fyrri tveir leikir liðanna höfðu báðir ráðist á lokasekúndum leikjanna og því var búist við spennandi leik á milli tveggja góðra liða. Sú varð þó ekki raunin því Eyjastelpur unnu öruggan sigur gegn slöku Stjörnuliði og ÍBV er því komið í úrslit Íslandsmótsins í fimmta sinn á 6 árum.
 
Það voru þó Stjörnustelpur sem byrjuðu leikinn betur í dag og komust í 3-0. Ekki er laust við að farið hafi um stuðningsmenn ÍBV því lítið gekk hjá okkar stelpum þessar fyrstu mínútur leiksins og m.a. varði Jelena markvörður Stjörnunnar vítakast. En ÍBV liðið komst smátt og smátt inn í leikinn og á lokakafla fyrri hálfleiks var aðeins eitt lið á vellinum - Eyjaliðið skoraði 10 mörk gegn 3 og staðan í hálfleik 16-12 ÍBV í vil.
 
Í seinni hálfleik breytti Stjarnan yfir í 3-2-1 varnarleik eftir að hafa spilað 5-1 vörn í fyrri hálfleik. Sú breyting skilaði tveimur fyrstu mörkum hálfleiksins en síðan ekki söguna meir. ÍBV spilaði seinni hálfleikinn fantavel, vörnin small saman og um leið kom sóknarleikurinn. Auk þess var Flora í markinu frábær og að öðrum ólöstuðum var hún besti maður vallarins, varði 28 skot í leiknum og þar af 18 skot í seinni hálfleik. Smátt og smátt jókst munurinn á liðunum og lokatölur voru 32-24, öruggur sigur ÍBV stelpnanna sem þar með eru komnar í úrslit Íslandsmótsins gegn Haukum.
 
Leikur okkar stúlkna hefur verið sívaxandi undanfarið og í dag spiluðu þær mjög vel. Vörnin small saman, Flora varði stórkostlega og sóknarleikurinn var góður. Með þessu áframhaldi má búast við spennandi úrslitaeinvígi, en þó er ljóst að ÍBV má ekkert slaka á gegn Haukum því þá fer illa. Haukar eru með frábært lið sem er búið að spila mjög vel í vetur og er ljóst að til að eiga möguleika verða leikmenn, aðstandendur og stuðningsmenn ÍBV að leggjast á eitt í baráttunni.
Sameinuð stöndum vér - sundruð föllum vér ! ÁFRAM ÍBV
 
Mörk ÍBV : Stasi 10, Eva Björk 8/5, Dara 5, Tatjana 4, Alla, 3, Ingibjörg 1, Guðbjörg 1. Flora varði 28 skot í markinu.
Mörk Stjörnunnar : Hekla 6/3, Kristín C 5/1, Elsbieta 3, Elísabet G 2, Rakel Dögg 2, Hind 2, Anna Blöndal 2, Kristín G 2. Jelena varði 11/1 skot í markinu og Helga Vala 4.
 
Viðtöl við Alfreð þjálfara og Hind Hannesdóttur eru komin á Halli tíví!