Handbolti - Rán í beinni útsendingu

14.apr.2005  23:38
Í kvöld fór fram 2.leikur ÍBV og Stjörnunnar í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handknattleik. Liðin höfðu mæst í Eyjum þar sem ÍBV fór með sigur af hólmi í æsispennandi leik og því var búist við háspennuleik í Garðabæ í kvöld. Sú varð raunin en því miður voru það Stjörnustúlkur sem hrósuðu sigri í kvöld, unnu mjög óverðskuldaðan sigur og knúðu því fram oddaleik í einvíginu.
 
Stelpurnar okkar byrjuðu leikinn vel og höfðu yfirhöndina nær allan fyrri hálfleik. Vörnin var að spila vel og sóknin gekk ágætlega. Auk þess var Flora í gríðarlegu stuði í markinu og gaf það hinum stelpunum aukinn kraft. ÍBV hafði eins marks forystu í hálfleik og því ljóst að spennandi síðari hálfleikur beið áhorfenda.
 
En ÍBV liðið hóf seinni hálfleikinn af miklum krafti. Eftir að Stjarnan hafði jafnað leikinn í 13-13 þá skoraði ÍBV 6 mörk í röð og staðan allt í einu orðin 19-13 Eyjastúlkum í vil. Munurinn hélst svo í 3-5 mörkum næstu mínútur og þegar 5 mínútur voru eftir þá var staðan 24-20. En þá gerðist eitthvað. Leikmenn ÍBV hikstuðu í sóknarleiknum, brutu klaufalega af sér í vörninni og skyndilega var staðan orðin 24-23, ÍBV þrjár á móti sex inni á vellinum og aðeins 1 mínúta til leiksloka. Stjarnan jafnaði svo metin í 24-24 og ÍBV fór í sókn. Stjarnan vann síðan boltann þegar 10 sekúndur voru eftir og tóku leikhlé. Þar stilltu þær upp í sóknarkerfi og tveimur fleiri í sókninni náðu þær að skapa sér færi og landsliðskonan Kristín Guðmundsdóttir, sem hafði ekki átt góðan leik fram að þessu, fór í gegn og skoraði sigurmarkið þegar tvær sekúndur voru eftir.
 
Sárgrætilegt tap er því staðreynd, sérstaklega þar sem ÍBV stelpurnar höfðu spilað vel í 50 mínútur og verið mikið betra liðið á vellinum. En leikurinn er ekki búinn fyrr en dómarinn flautar og það sönnuðu Garðbæingar í dag. Oddaleikurinn fer fram á laugardaginn í Eyjum og hefst klukkan 16:00.
 
Áhorfendur geta verið sem 8.maður inni á vellinum í svona leik og riðið baggamuninn. Því verða Eyjamenn að fjölmenna í Höllina á laugardaginn klukkan 16:00 og hvetja stelpurnar til dáða.
 
Maður leiksins í kvöld var án efa Flora í markinu en hún varði 28 skot, þar af 3 víti, og var stórkostleg í markinu. Annars var liðið að spila vel í leiknum, fyrir utan lokamínúturnar, og ljóst að ef stelpurnar spila jafn vel allar 60 mínúturnar á laugardaginn kemur þá munu þær sigra.