Florentina í viðtali við Fréttir. Við birtum hér viðtal við Florentinu er birtist í vikublaðinu Fréttum í síðustu viku. Flora mun verða í eldlínunni í kvöld er okkar stelpur mæta Stjörnunni í undanúrslitum DHL deildarinnar. Flora er mjög viðkunnuleg stúlka og hefur verið að verja vel í vetur og það er vonandi að hún loki markinu í kvöld. En hér kemur viðtalið:
Sennilega er hún Florentina, sem staðið hefur í marki handboltaliðs ÍBV kvenna í vetur, ekki árennileg fyrir andstæðingana en þegar hún sest á móti blaðamanni kemur í ljós að hún er glaðvær, brosmild og skemmtileg ung kona. En það er samt engin lognmolla yfir henni eins og allir sem fylgjast með handboltanum hafa fengið að kynnast í vetur. Hún hefur verið frá vegna meiðsla síðustu leiki en hún segist verða tilbúinn í slaginn á móti Stjörnunni í undanúrslitunum.
Fullu nafni heitir hún Grecu Florentina og kemur frá borginni Craiova í Rúmeníu þar sem hún er fædd og uppalin. Í dag er Florentina 23 ára en hún byrjaði að æfa handbolta 1996, þá 14 ára gömul. Félagið mitt heitir Cluj-Napoga og þar var ég í fjögur ár, segir Florentina þegar hún er beðin um að rekja handboltaferilinn.
Hún vakti strax athygli og á hún glæsilegan feril með unglingalandsliðum Rúmeníu. Í Evrópukeppni 16 ára liða urðum við meistarar 1999 og ég var valin besti markmaður mótsins. Í keppni 18 ára liða 2000 urðum við líka Evrópumeistarar og þá var ég líka valinn besti markvörðurinn. Ég var einnig valin besti markvörðurinn 2001 en þá lentum við í fimmta sæti.
Eftir góð ár í heimalandinu lá leiðin til Frakklands þar sem hún lék í eitt ár áður en hún hélt til Vestmannaeyja. En áfram var hún viðloðandi landslið Rúmeníu og nú var það aðalliðið. Árið 2003 náðum við að komast í úrslitakeppnina á Heimsmeistaramótinu eftir á sigur á Tyrkjum. Þá var ég í landsliðinu en ég var ekki valin þegar kom að sjálfri úrslitakeppninni. Við eigum frábæra markverði í Rúmeníu og ég held að ég sé í fjórða sæti sem er alls ekki slæmt. Það var því engin ástæða til að fara í fýlu og mér hefur gengið vel þrátt fyrir að vera ekki í landsliðinu. Í Frakklandi varð ég meistari með liði mínu en þar lék ég til helminga á móti tékkneskri konu.
Þaðan lá leiðin til Vestmannaeyja, en af hverju ÍBV? Maður fylgdist með góðum árangri Eyjakvenna í fyrravetur í Evrópukeppninni þannig að maður vissi af félaginu. Ég var með tveggja ára samning í Frakklandi og átti eitt ár eftir. Þjálfarinn vildi frekar fá franska stelpu í markið og eftir hringl fram og til baka ákvað ég að taka tilboði um að fara til ÍBV. Hvað ég vissi um ÍBV, Vestmannaeyjar og Ísland? segir Florentina hlæjandi.
Ég vissi að ÍBV er gott íþróttafélag þar sem vel er staðið að hlutunum. Ég vissi líka að hér er kalt en mér brá svolítið fyrsta daginn minn í Vestmannaeyjum. Það var ekki svo kalt en það eru mikil viðbrigði að koma frá miðri Evrópu þar sem hitinn getur farið upp í 40 stig á sumrin og vera allt í einu á lítilli eyju norður í höfum. Í ofanálag var ég stödd á eldfjalli, segir Florentina og brosir um leið og hún rifjar þetta upp.
En ég hugsaði; öll byrjun er erfið og síðan hefur þetta verið upp á við. ÍBV hefur staðið við sitt, þjálfarinn góður og stelpurnar frábærar. Það er reyndar talsverður aldursmunur á okkur aðkomustelpunum og heimastelpunum. Þrátt fyrir það er andinn góður í liðinu en samgangur mætti vera meiri.
Þegar Florentina er spurð um árangur liðsins í vetur segir hún að hann hefði mátt vera betri hjá Íslands- og bikarmeisturunum frá í fyrra. Ekki náðum við að verða bikarmeistarar en auðvitað stefnum við á að verða Íslandsmeistarar, segir Florentina en fyrsta skrefið að titlinum var stigið með því að slá Víkinga út í átta liða úrslitunum. Sjálf hefur ekki verið með í síðustu leikjum vegna meiðsla og hljóp reynsluboltinn Vigdís Sigurðardóttir í skarðið og stóð sig vel. Florentina er að ná sér af meiðslunum og verður tilbúin í slaginn á móti Stjörnunni þar sem Eyjakonur eiga heimaleikjaréttinn.
Að öllu eðlilegu eigum við að vinna Stjörnuna en þær hafa reynst okkur erfiðar í vetur. Það sem hefur háð okkur er skortur á samhæfingu en þetta er að koma. Ég held því að við eigum möguleika á að komast alla leið í úrslitin.
Hvað með næsta vetur, ætlar þú að vera áfram hjá ÍBV?
Af hverju ekki? Mér líkar ágætlega hér en það er mister Hlynur sem ræður því. Hann stjórnar þessu af skörungsskap og það er hann sem ræður framhaldinu, sagði þessi geðþekka stúlka að lokum.
Tekið úr vikublaðinu Fréttum.