Það var svo ekki fyrr en í seinni vítakastskeppninni þar sem hvort liðið um sig tók fimm skot að Eyjamönnum tókst að innbyrða sigurinn, það gerði Zoltan Belanyi eftir sannkallaðan maraþonleik, sem líklega er lengsti handboltaleikur sem háður hefur verið í háa herrans tíð.
Framarar komu verulega á óvart í leiknum og voru lengst af yfir. Þeir byrjuðu á því að komast fimm mörkum yfir 1:6 og þegar fimmtán mínútur voru búnar höfðu Eyjamenn aðeins skorað þrjú mörk.
En eftir það náðu Eyjamenn að laga stöðuna, staðan í hálfleik var 8:11. Sama var svo uppi á teningnum í síðari hálfleik, Framarar voru lengst af yfir eða allt þar til um fimm mínútur voru eftir að Eyjamenn komust í fyrsta sinn yfir í leiknum. En Frömurum tókst að jafna og staðan 24:24 þegar venjulegur leiktími var liðinn og því gripið til framlenginar.
Eyjamenn höfðu svo leikinn í hendi sér undir lok framlengingarinnar, voru yfir 30:29 þegar hálf mínúta var eftir og með boltann. En Framarar unnu boltann, brunuðu upp og jöfnuðu 30:30 og því varð að grípa í annað sinn til framlengingar.
Eftir hana var enn jafnt, 37:37 og því varð að grípa til vítakastskeppni.
Eftir fyrstu fimm vítaskotin var enn jafnt, 40:40 og því þurftu liðin að taka önnur fimm vítaskot til að fá niðurstöðu í leiknum. Framarar byrjuð á að skora á meðan Eyjamenn klúðruðu sínu fyrsta vítaskoti. Framarar skoruðu aftur og Sigurður Bragason hélt sínum mönnum inni í leiknum með því að skora. En Framarar klúðruðu síðustu þremur vítaskotum sínum á meðan Eyjamenn misnotuðu bara eitt og lokatölur því 42:41.
"Það á ekkert lið skilið að tapa svona," sagði Heimir Ríkharðsson, þjálfari Fram áður en síðari vítakastskeppnin byrjaði og sjálfsagt taka flestir undir það með honum. En Eyjamenn fögnuðu í leikslok, staðan er 1:0 fyrir þeim í viðureign liðanna og bíða nú flestir spenntir eftir leik tvö hjá liðunum.
Hér má sjá markaskorara í þessum leik.
Viðtöl komin inn á Halli TV, undir viðtöl.
Tekið af www.eyjafrettir.is